Erlent

Handtekinn í Bólivíu eftir nær fjörutíu ár á flótta

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Cesare Battisti.
Cesare Battisti. EPA/FERNANDO BIZERRA JR.
Ítalinn og fyrrverandi uppreisnarmaðurinn Cesare Battisti var handsamaður í Bólivíu í gær og í kjölfarið framseldur til Ítalíu. Búist er við komu hans til Rómar síðdegis á morgun. Battisti hefur verið eftirlýstur í heimalandi sínu í nær fjörutíu ár fyrir morð sem hann er sakaður um að hafa framið á áttunda áratug síðustu aldar.

Battisti slapp úr ítölsku fangelsi árið 1981 og flúði til Brasilíu þar sem hann bjó um árabil undir verndarvæng þáverandi forseta, Luiz Inácio Lula da Silva. Battisti var hins vegar ekki í náðinni hjá eftirmanni Lula, Michel Temer, sem felldi landvistarleyfi hans úr gildi í desember síðastliðnum. Í kjölfarið var handtökuskipun gefin út á hendur honum og fór hann því í felur.

BBC greinir frá því að Battisti hafi verið handtekinn í bólivísku borginni Santa Cruz í gær.  Samkvæmt ítölskum fjölmiðlum var hann einn á ferð, með sólgleraugu og gerviskegg. Hér að neðan má sjá myndband sem lögregla birti af Battisti en það er sagt tekið upp rétt áður en lögregla hafði hendur í hári hans.

Innanríkisráðherra Ítalíu, Matteo Salvini, staðfesti á Twitter-reikningi sínum í dag að Battisti væri kominn í hendur ítalskra yfirvalda og væri á leið með flugi til Ítalíu. Búist er við því að flugvélin með Battisti innanborðs lendi í Róm síðdegis á morgun, mánudag.

Árið 1979 var Battisti dæmdur fyrir að vera meðlimur í hryðjuverkasamtökunum Proletari Armati per il Comunismo, PAC. Eftir flótta hans úr fangelsi árið 1981 var hann dæmdur fyrir morðin á tveimur ítölskum lögreglumönnum, aðild að þriðja morðinu og skipulagningu á því fjórða. Battisti hefur játað að hafa verið meðlimur í PAC en þvertekur fyrir að hafa verið viðriðinn morðin.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×