Erlent

Leiðin greið fyrir nýja stjórn Löfven

Atli Ísleifsson skrifar
Stefan Löfven hefur gegnt embætti forsætisráðherra Svíþjóðar frá árinu 2014.
Stefan Löfven hefur gegnt embætti forsætisráðherra Svíþjóðar frá árinu 2014. EPA
Þingmenn sænska Vinstriflokksins munu skila auðu í fyrirhugaðri atkvæðagreiðslu í sænska þinginu um Stefan Löfven, formann Jafnaðarmanna, sem næsta forsætisráðherra Svíþjóðar. Atkvæðagreiðslan fer að öllum líkindum fram á föstudag. Frá þessu greindi Jonas Sjöstedt, formaður Vinstriflokksins, í morgun.

Greint var frá því um helgina að samkomulag hafi náðst um nýja minnihlutastjórn Jafnaðarmanna og Græningja sem myndi njóta stuðnings Miðflokksins og Frjálslyndra – tveggja flokka sem hafa verið hluti bandalags borgaralegu flokkanna.

Í samstarfsyfirlýsingu Jafnaðarmanna, Græningja, Miðflokksins og Frjálslyndra var tekið fram að Vinstriflokkurinn skyldi ekki hafa nein áhrif á stefnu stjórnarinnar á kjörtímabilinu. Flokkarnir fjórir eru hins vegar ekki með meirihluta þingsæta og væru því engu að síður háðir stuðningi Vinstriflokksins, þar sem ólíklegt þykir að stuðningur kæmi úr röðum flokka á hægri vængnum.

Jonas Sjöstedt er formaður sænska Vinstriflokksins.Getty

Viðræður við Löfven

Sjöstedt sagðist fyrr í vikunni ekki ætla að greiða atkvæði með Löfven vegna þess sem fram kæmi í samstarfsyfirlýsingu nýrrar stjórnar. Eftir viðræður við Löfven síðustu daga, er það hins vegar niðurstaða Vinstriflokksins að greiða atkvæði með Löfven.

Kosningar fóru fram í Svíþjóð 9. september síðastliðinn og hefur erfiðlega gengið að mynda nýja stjórn. Hafa deilur meðal annars snúist um stöðu Svíþjóðardemókrata í sænskum stjórnmálum, en ýmsir flokkar hafa útilokað að eiga aðild að stjórn sem væri háð stuðningi flokksins, sem rekur harða stefnu í innflytjendamálum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×