Innlent

Víða vetrarfærð á landinu

Elín Margrét Böðvarsdóttir skrifar
Vetrarfærð, hálka og snjóþekja er víða, einkum á fjallvegum, samkvæmt upplýsingum á vef Vegagerðarinnar.
Vetrarfærð, hálka og snjóþekja er víða, einkum á fjallvegum, samkvæmt upplýsingum á vef Vegagerðarinnar. vísir/vilhelm
Afar skörp kuldaskil nálguðust landið nú í morgun og mun kalda loftið þvinga sér yfir landið til austurs í dag að því er segir í hugleiðingum veðurfræðings Veðurstofunnar. Því mun hlýna víðast hvar áður en kólnar aftur en skilin ýta rigningu á undan sér en á eftir þeim má búast við snjókomu.

Upp úr hádegi snýst í hægari suðvestanátt og má þá búast við él allvíða, fyrst vestast á landinu. Lengst af verður þurrt norðaustanlands, en þar má einnig búast við éljagangi í kvöld.

„Á morgun heldur útsynningurinn áfram með éljum og köldu veðri, en annað kvöld dregur enn á ný til tíðinda þar sem hvessir, hlýnar og fer að rigna,“ segir á vef Veðurstofunnar.

Umhleypingar verða nú um helgina og líkur á að ísing og hálka myndist víða. Á mánudag er útlit fyrir að lægi og rofi til. Vetrarlegt og tíðindalítið veður mun líklega ráða ríkjum framan af næstu viku og kalt í veðri.

Vetrarfærð, hálka og snjóþekja er víða, einkum á fjallvegum, samkvæmt upplýsingum á vef Vegagerðarinnar.

Ófært er um Dynjandisheiði og Hrafnseyrarheiði en fært er um flestar aðrar leiðir þótt víða sé vetrarfærð. Framkvæmdir standa yfir á Kringlumýrarbraut til suðurs fram eftir degi í dag vegna viðgerða á ljósleiðara en hámarkshraði um vinnusvæðið hefur verið lækkaður í 50 km/klst og eru vegfarendur beðnir að sýna aðgát og virða merkingar.

Vegna vinnu við að breikka Hringveginn er hámarkshraði takmarkaður við 70 km/klst á um þriggja kílómetra kafla frá Hveragerði austur að Kotstrandarkirkju. Á afmörkuðum svæðum við Varmá og austur fyrir gatnamót að Ölfusborgum er hámarkshraði takmarkaður við 50 km/klst.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×