Innlent

Hátt í 16 stiga hiti í Héðinsfirði í dag

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Staðan var sumarleg á hádegi í dag líkt og kortið sýnir.
Staðan var sumarleg á hádegi í dag líkt og kortið sýnir. Mynd/Veðurstofa
Það voru heldur óvenjulegar hitatölurnar sem litu dagsins ljós á Tröllaskaga í dag. Hæstur fór hitinn í 15,8 gráður í Héðinsfirði í dag.

Í samtali við Vísi segir Birta Líf Kristinsdóttir, veðurfræðingur á Veðurstofu Íslands, að ástæðan sé einföld. Hnjúkaþeyr, hlýr og þurr vindur sem blæs af fjöllum hefur leikið um íbúa Tröllaskagans í dag.

Íslendingar eru ef till vanari því að glíma við frost og aðrar vetrarhörkur í byrjun árs en töluverð hlýindi hafa verið á landinu í dag. Á Siglufirði mældist mestur hiti 15,1 gráða og á Skjaldþingsstöðum í Vopnafirði mátti sjá sömu hitatölur.

Eitthvað mun kólna um helgina en í næstu viku eru áframhaldandi hlýindi í kortunum.

Veðurhorfur á landinu

Suðlæg átt, 8-15 m/s, en sums staðar hvassari í fyrstu. Rigning eða súld á köflum S- og V-lands, en úrkomulítið annars staðar. Hiti 4 til 12 stig, hlýjast N-lands.

Veðurhorfur á landinu næstu daga

Á laugardag:

Sunnan 10-15 m/s og víða rigning, en vestlægari síðdegis með snjókomu eða éljum og kólnar. Hiti nálægt frostmarki um kvöldið.

Á sunnudag:

Allhvöss eða hvöss suðvestanátt og él, hvassast NV-til, en þurrt á austanverðu landinu. Lægir seinnipartinn. Hiti víða 0 til 4 stig.

Á mánudag:

Suðlæg eða brytileg átt og úrkomulítið en norðlæg átt á N-verðu landinu með éljum seinnipartinn. Hiti nálægt frostmarki, en 0 til 5 stiga hiti syðst.

Á þriðjudag:

Hægt vaxandi suðlæg átt með hlýnandi veðri. Fer að rigna S- og V-til um kvöldið.

Á miðvikudag:

Útlit hlýja suðvestanátt með rigningu um landið vestanvert en þurrt eystra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×