Erlent

Meintur nauðgari sagður hafa flúið til Íslands

Samúel Karl Ólason skrifar
Jay Paul Robinson.
Jay Paul Robinson.
Yfirvöld í Bandaríkjunum telja að Jay Paul Robinson, sem hefur verið ákærður fyrir nauðganir og að taka myndir af fólki á almenningssalerni, svo eitthvað sé nefnt, hafi flúið til Íslands til að forðast dóm. Robinson, sem er 42 ára gamall, var handtekinn í ágúst vegna gruns um að hann hefði falið myndavél á salerni í bókasafni í Columbia. Ekki er vitað hvar hann er nú staddur en rannsakendur komust að því að hann hefði bókað flug til Keflavíkur þann 5. ágúst.

Starfsmenn bókasafnsins fundu áðurnefnda myndavél og var lögregla kölluð til. Upptökur úr öryggismyndavélum gáfu í skyn að Robinson væri sökudólgurinn og var hann handtekinn þegar hann kom og reyndi að sækja myndavélina.

Á henni fundust myndir af mönnum, konum og börnum.

Eftir að Robinson var handtekinn fannst, samkvæmt Columbia Tribune, myndefni á tölvu hans sem sýndi nauðganir og ýmis kynferðisbrot. Í dómsskjölum segir að efnið sýni Robinson ítrekað byrla konu ólyfjan og nauðga henni.



Í tölvupóstum sem hann sendi á fyrrverandi eiginkonu sína sagðist hann nokkuð viss um að hann ætlaði sér að fara á brott til lengri tíma. Hún sagði rannsakendum að hann væri að starfa erlendis sem verkamaður.

„Ég óttast að þú skiljir ekki hve slæmt þetta á eftir að verða. Ég er að fara að hitta lögfræðing á mánudaginn. Ég er nokkuð viss um að ég sé að fara í burtu til lengri tíma,“ skrifaði Robinson til fyrrverandi eiginkonu sinnar. Hann sagði einnig að ekki væri nokkur leið fyrir hann að taka til baka það sem hann hefði gert en hann muni ekki geta valdið meiri skaða.

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×