Viðskipti innlent

Segir algeran jöfnuð óæskilegan

Samúel Karl Ólason skrifar
Konráð S. Guðjónsson, hagfræðingur Viðskiptaráðs.
Konráð S. Guðjónsson, hagfræðingur Viðskiptaráðs. Vísir/GVA/Vilhelm
Konráð S. Guðjónsson, hagfræðingur Viðskiptaráðs, segir algeran jöfnuð óæskilegan. Hann var gestur í Bítinu á Bylgjunni morgun og ræddi hann þar skoðun Viðskiptaráðs sem birt var í gær. Sú skoðun snýr að miklu leyti að kröfum verkalýðshreyfingarinnar og að þær séu ekki í samræmi við raunverulega stöðu Íslands.



Í skoðuninni segir að kröfur verkalýðshreyfingarinnar geri ráð fyrir því að góðir hlutir gerist strax. Þær leiðir séu ólíklegar til að skila þeim árangri sem stefnt er og séu þess í stað líklegar til að skerða lífskjör flestra Íslendinga.

„Við viljum að allir hafi jöfn tækifæri eða allir geti fengið helstu nauðsynjar og geti notið grunngæðum í lífinu. Nái endum saman og hafi tækifæri til að blómstra. Við viljum það. Við viljum hins vegar ekki algeran jöfnuð,“ sagði Konráð í Bítinu í morgun. Hann sagði að þá yrði enginn hvati til þess að skara fram úr.

„Það verða alltaf einhverjir á lægstu laununum. Já, þú vilt hafa einhvern á lægstu launum en þú vilt alveg hækka þau. En það sem manni sýnist með þessar kröfugerðir og það sem er farið fram með, er að það gangi ekki einu skrefi, heldur næstum því heilu maraþoni, fram úr því sem maður myndi halda að sé raunhæft.“

Konráð segir að miðað við kröfur um skattleysismörk lægstu launa myndu þýða 149 milljarða króna tap fyrir ríkissjóð.

„Samkvæmt okkar greiningu er ein sviðsmyndin sú að það þyrfti að hækka skatta á hverja einustu krónu sem landsmenn afla sér, umfram 300 þúsund krónur, þyrftu að hækka upp í 60 prósent fyrir neðra skattþrepið og 67 prósent fyrir efra skattþrepið til að það gangi upp.“

Konráð segir alla sammála um að fólk eigi að geta haft í sig og á. Hins vegar sé verkalýðshreyfingin að leggja til svo miklar breytingar á svo stuttum tíma að það sé óraunhæft.

Hlusta má á hluta Bítisins þar sem Konráð hér að neðan.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×