Íslenski boltinn

Arnar Þór tekur við 21 árs landsliðinu af Eyjólfi

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Arnar Þór Viðarsson og Eiður Smári Guðjohnsen.
Arnar Þór Viðarsson og Eiður Smári Guðjohnsen. vísir/vilhelm
Arnar Þór Viðarsson er tekinn við sem þjálfari íslenska 21 árs landsliðsins í knattspyrnu en þetta var staðfest á blaðamannafundi í höfuðstöðvum KSÍ í dag.

Arnar Þór mun hafa gamla herbergisfélaga sinn úr landsliðinu, Eið Smára Guðjohnsen, sér til halds og trausts en Eiður Smári verður aðstoðarþjálfari liðsins.

Arnar tekur við starfi Eyjólfs Sverrissonar sem var búinn að vera með 21 árs landsliðið í næstum því heilan áratug.

Ráðning Arnars og Eiðs Smára er búin að vera eitt verst geymda leyndarmálið í íslenska fótboltaheiminum um þessi jól og áramót en ráðning þeirra var endanlega staðfest á blaðamannafundi í dag.

Arnar Þór Viðarsson er fertugur síðan í mars á síðasta ári en hann er líka aðstoðarknattspyrnustjóri belgíska félagsins KSC Lokeren sem og þjálfari 21 árs landsliðs belgíska félagsins.

Arnar Þór var líka þjálfari Cercle Brugge frá október 2014 til mars 2015 og tók síðan tímabundið við stöðu þjálfara Lokeren í október síðastliðnum þegar Peter Maes var rekinn.

Arnar fór fyrst að vinna fyrir Knattspyrnusamband Íslands á síðasta ári þegar hann njósnaði um mótherja íslenska karlalandsliðsins í Þjóðadeildinni. Hann mun halda því áfram.  

Arnar Þór lék á sínum tíma 52 leiki fyrir A-landslið Íslands og þá er hann þrettándi leikjahæsti leikmaður 21 árs landsliðsins frá upphafi með sautján leiki.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×