Skoðun

Varahlutir

Guðmundur Brynjólfsson skrifar
Nú á ríkið úr manni innmatinn. Þegar maður er dauður! Ég fæ þetta ekki til að ganga upp. Það má ráðstafa úr manni innvolsinu að manni forspurðum rétt um leið og maður gefur upp öndina. Græða þetta í ólíklegustu fósa. Jafnvel lifrina – verði þeim að varastykkinu því!

Nei, hér er eitthvað skakkt. Það er alveg sama með hvaða hætti er um okkur fjallað mannskepnurnar, alltaf er hamrað á því að maður ráði yfir eigin líkama. Þannig ræður móðir ófædds barns yfir eigin líkama, sem vill reyndar einnig til að er líkami barnsins, ef á mér er káfað af mistækum pervert þá er það mín líðan sem ræður enda ég fyrirsvarsmaður míns kjöts. Ráðist að mér slúbbert í Reykjavík – sem oft getur hent – og hann rifið af mér eyra eða lamið úr mér tönn þá eru upp stignir úr nánast sama holræsi og ódæðið var framið, lögmenn, sem hrópa: „Áttu rétt á bótum?“

Það er sama hvað, maður á sinn kropp, gler og innihald. Hvergi efar nokkur maður að þetta gums sem myndar Guðmund sé hans lögmæta eign og hafi varnarþing í þeim búk. Og er það þá þing nokkuð.

En svo deyr maður, enda stefnir tilveran að því, og þá á maður ekki neitt, ræður ekki neitt við neitt og það er útvistað úr manni innmatnum eins og maður hafi aldrei verið annað en gangandi veisluþjónusta. Og sjálfsagt græðir einhver brismógúll á öllu saman, milta og nýrum – eða haldið þið að svona nokkuð verði haft félagslegt er fram líða stundir?

Ágætu lesendur. Nú eruð þið ríkiskroppar nema annað sé tekið fram og á ykkur hangi skjal sem forbjóði brask með blóðrík innstykkin. Ég segi nei! Ég seldi ekki einu sinni Löduna mína í varahluti.




Skoðun

Skoðun

BRCA

Elín Íris Fanndal Jónasdóttir skrifar

Sjá meira


×