Viðskipti innlent

MS kynnir drykk sem hjálpar fólki að þyngjast

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Drykkurinn er afrakstur rannsóknarsamstarfs MS, HÍ og Landspítalans.
Drykkurinn er afrakstur rannsóknarsamstarfs MS, HÍ og Landspítalans. Vísir
Mjólkursamsalan mun á næstu dögum kynna til sögunnar nýjan næringardrykk, sem sagður er svipað til orkuríkra drykkja á borð við Build Up. Drykkurinn mun bera heitið Næring+ og verður hann seldur í handhægum fernum. Er hann ekki síst ætlaður fólki sem á erfitt með að þyngjast, til að mynda öldruðum.

Uppistaðan í drykknum er íslensk mjólk, að sögn Björns S. Gunnarssonar, vöruþróunarstjóra MS. Hann sagði í samtali við Reykjavík síðdegis í dag að drykkurinn sé afrakstur rannsóknarsamstarfs Mjólkursamsölunnar, Háskóla Íslands og Landspítalans.

Hann lýsir drykknum sem próteinríkum og orkumiklum auk þess sem honum er ætlað að sporna við þyngdartapi. Auk fyrrnefnds próteins er Næring+ kalk- og vítamínbættur, til að mynda með D-vítamíni og B-12. Hann henti því sérstaklega vel fólki sem þurfi að þyngja sig eða berjast gegn vöðvarýrnun. Björn segir að sama skapi að í drykknum sé ekki mikill viðbættur sykur.

Björn bætir við að MS sé ekki síst að horfa á eldri neytendur, en margir þeirra glíma við vannæringu sem í sumum tilfellum getur verið alvarleg. Þessi næringardrykkur gæti því verið eins konar millimál fyrir þennan hóp. Drykkurinn sé þó ekki til þess fallinn að leysa af alla næringarþörf þeirra sem eldri eru, eða þeirra sem eiga einhverra hluta vegna erfitt með að halda þyngd. 

Spjall Björns við Reykjavík síðdegis má heyra hér að neðan.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×