Erlent

Flug á Gatwick gæti raskast í marga daga vegna drónanna

Kjartan Kjartansson skrifar
Um 110.000 manns áttu bókaða ferð til eða frá Gatwick í dag. Þúsundir hafa setið fastar í flugstöðvarbyggingunum.
Um 110.000 manns áttu bókaða ferð til eða frá Gatwick í dag. Þúsundir hafa setið fastar í flugstöðvarbyggingunum. Vísir/EPA
Breska lögreglan leitar enn að þeim sem bera ábyrgð á drónum sem flogið hefur verið yfir Gatwick-flugvöll og stöðvað flugumferð frá því í gærkvöldi. Tugir þúsunda farþega hafa orðið fyrir töfum og raskanir gætu orðið á flugvellinum í marga daga á eftir.

Umferð um Gatwick var fyrst stöðvuð í gærkvöldi eftir að drónar sáust þar á sveimi. Flygildin hafa ítrekað sést yfir flugvellinum síðan og hefur öll umferð legið niðri þar í dag. Lögreglan í Sussex telur ekki að uppákoman tengist hryðjuverkastarfsemi en að flugumferðinni hafi verið raskað vísvitandi.

Varnarmálaráðherra Bretlands tilkynnti nú síðdegis að herinn yrði kallaður til aðstoðar lögreglu. Lögreglan hefur ekki viljað skjóta drónana niður af ótta við hættuna á voðaskotum. Ráðherrann tók ekki fram hvar herinn gæti eða myndi aðhafast, að sögn The Guardian.

Framkvæmdastjóri Gatwick-flugvallar segir að þegar hægt verður að hleypa umferð á aftur verði fyrst reynt að koma farþegum sem nú bíða áfram. Það gæti tekið nokkra daga.

Allt að fimm ára fangelsi liggur við því að trufla flugsamgöngur með þessum hætti, að sögn breska ríkisútvarpsins BBC.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×