Innlent

Rauðar tölur þegar klukkur hringja inn jólin

Birgir Olgeirsson skrifar
Svona er útlit fyrir að staðan verði klukkan sex á aðfangadag.
Svona er útlit fyrir að staðan verði klukkan sex á aðfangadag. Veðurstofa Íslands
Vindur verður með með allra hægasta móti á landinu í dag og kalt í veðri. Samkvæmt Veðurstofu Íslands verður allvíða léttskýjað, en sums staðar er þokuloft og ber helst að nefna Austurland í því sambandi. Á Egilsstöðum er til dæmis búin að vera þoka nærri samfleytt í tvo og hálfan sólarhring, en vonir standa til að henni létti síðdegis í dag.

Í kvöld og nótt er útlit fyrir vestan golu og búist er við lítils háttar úrkomu á vestanverðu landinu, ýmist má búast við rigningu eða snjókomu. Þar sem úrkoman verður á formi rigningar og yfirborð jarðar er frostkalt fyrir, verður rigningin að ís þegar hún fellur til jarðar og sérlega varasöm hálka myndast. Akandi og gangandi ferðalangar á vesturhelmingi landsins í kvöld, nótt og fyrramálið mega hafa möguleika á flughálku í frostrigningu í huga.

Þegar líður á morgundaginn verður vindur ákveðnari, seint á morgun er útlit fyrir suðvestan kalda eða strekking. Þá er útlit fyrir að hlýnað hafi vel upp fyrir frostmark á láglendi á vesturhelmingi landsins og þar er útlit fyrir rigningu af og til. Áfram verður þurrt austan megin á landinu. 

Á aðfangadag er síðan áfram útlit fyrir ákveðinn vind úr suðvestri og hita 3 til 7 stig. Lítið verður þó eftir að rigningunni þegar klukkur hringja inn jólin.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×