Innlent

Deilt um hleðslu rafbíla

Jóhann Óli Eiðsson skrifar
Á húsfundi í vor var um það rætt að koma upp hleðslustaurum fyrir rafbíla á kostnað húsfélagsins.
Á húsfundi í vor var um það rætt að koma upp hleðslustaurum fyrir rafbíla á kostnað húsfélagsins. Vísir/Vilhelm
Kærunefnd húsamála gat ekki gefið álit sitt á því hvort samþykki allra lóðarhafa væri nauðsynlegt áður en hleðslustaurum fyrir rafbíla yrði komið fyrir við húseign þeirra. Ástæðan var sú að ekki lá fyrir hvers lags staura var um að ræða.

Um er að ræða húsfélag sem stofnað var í upphafi árs. Á húsfundi í vor var um það rætt að koma upp hleðslustaurum fyrir rafbíla á kostnað húsfélagsins. Einn íbúðareigandi lýsti því yfir að hann samþykkti ekki slíkar framkvæmdir.

Í áliti kærunefndarinnar kom fram að uppsetning hleðslustaura fæli ekki í sér breytingu á hagnýtingu sameignar væru umrædd bílastæði áfram notuð sem bílastæði. Því dygði samþykki einfalds meirihluta til þess. Ætti hins vegar að sérmerkja bílastæði fyrir rafbíla þyrfti samþykki allra fyrir þeirri breytingu. Hið sama gilti ef nýta ætti bílastæðið sem hleðslustöð enda þá um breytta nýtingu á sameign að ræða.

Í álitinu segir líka að einnig gæti komið til álita hvort uppsetning staursins teldist „óvenjulegur og dýr búnaður“ í skilningi fjöleignarhúsalaga. Skipti þar máli hve dýrir staurarnir eru og hvernig kostnaður vegna notkunar þeirra skiptist. Í ljósi þess að ekki lá fyrir hvernig framkvæmdinni yrði háttað taldi nefndin sig ekki geta gefið álit sitt á hvort framkvæmdin væri í samræmi við lög.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×