Innlent

Stúlkan sem lést ekki orðin eins árs

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Frá vettvangi slyssins í morgun en Neyðarlínu barst tilkynning  um slysið klukkan 9:42.
Frá vettvangi slyssins í morgun en Neyðarlínu barst tilkynning um slysið klukkan 9:42. Adolf Ingi Erlingsson
Litla stúlkan sem lést í umferðarslysinu við Núpsvötn í gær var fædd í janúar 2018. Hún var því ekki orðin ársgömul en þetta kemur fram í tilkynningu frá lögreglunni á Suðurlandi.

Auk litlu stúlkunnar létust tvær konur í slysinu. Önnur þeirra var fædd árið 1982 og hin árið 1985.

Fjórir slösuðust alvarlega, tveir bræður, og tvö börn, sjö og níu ára gömul. Öll voru þau breskir ríkisborgarar af indverskum ættum. Konurnar voru eiginkonur bræðranna.

Frá brúnni yfir Núpsvötn í gærvísir/jói k.

Virðist sem bíllinn hafi snúist á brúnni og farið upp á vegriðið

Tildrög slyssins eru til rannsóknar hjá lögreglu og rannsóknarnefnd samgönguslysa. Í tilkynningu lögreglu segir að svo virðist sem bíllinn hafi snúist á brúnni sem liggur yfir Núpsvötn með þeim afleiðingum að bíllinn fór upp á vegrið brúarinnar, hægra megin, rann svo eftir því nokkra vegalengd og svo út af henni. Þar féll bíllinn svo niður á áraurana fyrir neðan brúna:

„Fyrir liggur að bifreiðinni var ekið fram hjá myndavélum við Hvolsvöll snemma sama morgun. Bifreiðinni var ekið til austurs, eftir Suðurlandsvegi og virðist hafa snúist á brúnni með þeim afleiðingum að hún fór upp á vegrið brúarinnar, hægra megin, eftir því nokkra vegalengd og síðan útaf henni. Þar fellur bíllinn niður á áraurana fyrir neðan brúna.

Hægt reyndist að aka, eftir vegslóða austar á sandinum, að bifreiðinni og athafna sig með sjúkrabíla og tækjabúnað björgunaraðila við brúna. Björgunaraðgerðir voru umfangsmiklar og margir sem að þeim komu. Þannig mættu viðbragðsaðilar alla leið frá Höfn að austan og frá Selfossi að vestan auk viðbragðsaðila úr Reykjavík sem m.a. voru fluttir með tveimur þyrlum Landhelgisgæslunnar.

Veðurfarslegar aðstæður til björgunar á vettvangi voru þokkalegar en hins vegar þungbúið og mikil úrkoma vestar. Landhelgisgæslan mun hafa notað þriðju vélina til að leiðsegja þyrluflugmönnum á vettvang vegna þess hversu skyggni til flugs var slæmt sem og til að tryggja fjarskipti við vettvang. Viðbragðsaðilar á leið á vettvang, bæði austan og vestan að tilkynntu um hálkubletti á leiðinni þangað.

Lögregla biður þá sem mögulega hafa upplýsingar um slysið að hafa samband við okkur í síma 444 2010, á facebook eða í tölvupósti á netfanginu sudurland@logreglan.is

Lögregla þakkar öllum þeim sem að aðgerðunum komu fyrir þeirra vinnu, stóra sem smáa.  Samvinna viðbragðsaðila stendur upp úr í þessu erfiða máli og ljóst að slagkrafturinn er mikill þegar allir leggjast á eitt,“ segir í tilkynningu lögreglunnar.

Fréttin hefur verið uppfærð en í fyrstu útgáfu hennar var rangt farið með fæðingarár kvennanna þar sem röng ártöl voru gefin upp í fyrstu tilkynningu lögreglu.




Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×