Innlent

WOW hverfur aftur til fortíðar

Sunna Sæmundsdóttir skrifar
Skúli Mogensen, forstjóri WOW air.
Skúli Mogensen, forstjóri WOW air. Vísir/Friðrik Þór Halldórsson
Um 350 manns var sagt upp störfum hjá WOW air í dag. Forstjóri segir aðgerðina hafa verið nauðsynlega til að einfalda reksturinn og hverfa aftur til sama rekstrarmódels og var notað árið 2016. Það þýðir engar breiðþotur, færri flugvélar og færri áfangastaðir. Skúli Mogensen segist hafa gert mistök og ætlað sér of mikið.

Snemma í morgun var 350 starfsmönnum WOW air sagt upp, þar af 111 fastráðnum og um 240 verktökum. Uppsagnirnar dreifast á allar deildir en flugliðar eru stærsti einstaki hópurinn. Fjörtíu fastráðnum flugliðum var sagt upp og tugum lausráðinna. Engum fastráðnum flugmönnum var sagt upp en samningar við fjölda verktaka verða ekki endurnýjaðir.

„Augljóslega er þetta búið að vera mjög erfiður dagur og þungbær. En þetta er því miður nauðsynlegt í ljósi aðstæðna og ég væri ekki að gera þetta nema ég teldi það vera fyrir bestu fyrir WOW til lengri tíma litið," segir Skúli Mogensen, forstjóri WOW air.

Flugvélum verður fækkað úr tuttugu í ellefu.Vísir/Vilhelm
Hann segir uppsagnirnar ekki beina kröfu Indigo Partners, sem ætla að fjárfesta í félaginu. Hins vegar hafi þeir talið að einfalda þyrfti reksturinn til þess að ná arðsemi á ný. Engar frekari uppsagnir eru fyrirhugaðar að sögn Skúla og var ákveðið að fara í eina stóra aðgerð til þess að höggva á hnútinn.

„Ég ætla alls ekki að gera þá að blóraböggli í þessu máli. Við þurfum að bera ábyrgð á eigin rekstri," segir Skúli.

Færa á flugfélagið aftur í einfaldari búning og er horft til ársins 2016 sem fyrirmyndar. Þotum verður fækkað úr tuttugu og niður í ellefu og áfangastöðum verður fækkað. Ef 2016 er notað sem fyrirmynd gætu áfangastaðirnir farið úr 37 og niður í 29. En eina sem er ljóst núna með leiðarkerfið er að breiðþotur verða teknar úr notkun og flugi til Los Angeles og Nýju Delí verður hætt. 

„En ég legg áherslu á ða það verða engar breytingar gerðar núna um hátíðirnar heldur ganga breytingarnar í gegn um miðjan janúar," segir Skúli.

Hann segist sjálfur bera ábyrgð á stöðunni, hann hafi ætlað sér of mikið og misst sjónar á því að ná árangri sem lággjaldaflugfélag. 

„Við fórum að haga okkur eins og gömlu legacy-flugfélögin, því miður. Við vorum komin út um víðan völl og vorum farin að reyna gera allt fyrir alla. Það er náttúrulega mun flóknara en að hafa reksturinn einfaldan. Því miður voru þetta mikil mistök og það er þá jafnframt mikilvægt að horfast í augu við það og takast á við vandamálið. Það er það sem ég er að gera hér í dag," segir Skúli.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×