Innlent

Líkur á aur­skriðum og krapa­flóðum á Aust­fjörðum

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Eins og sést á þessari úrkomuspá Veðurstofunnar á að rigna hressilega á Austurlandi í dag.
Eins og sést á þessari úrkomuspá Veðurstofunnar á að rigna hressilega á Austurlandi í dag. veðurstofa íslands
Þar sem spáð er áframhaldandi rigningu og vatnavöxtum í ám á Austfjörðum eru auknar líkur á aurskriðum og krapaflóðum í landshlutanum að því er segir í athugasemd veðurfræðings á vef Veðurstofu Íslands.

Annars verður austan strekkingur og milt veður í dag samkvæmt hugleiðingum veðurfræðings. Rigningin verður aðallega austan lands en úrkomulítið vestan til fram eftir degi.

Á morgun verður hægari vindur og dálítil væta en þó þurrt að kalla á Norður- og Vesturlandi.

Veðurhorfur á landinu:

Austan 8-15 og talsverð rigning A-lands í dag. Úrkomulítið V-til á landinu, en víða rigning í kvöld. Hiti 2 til 9 stig. Austan 8-13 á morgun, en hægari fyrir norðan. Rigning eða skúrir um landið SA-vert, annars þurrt að kalla. Hiti 0 til 7 stig, mildast syðst.

Á miðvikudag:

Austan 3-8 m/s, en 8-13 syðst. Rigning SA-til á landinu, annars þurrt. Hiti 0 til 5 stig, en í kringum frostmark N-lands.

Á fimmtudag:

Hæg austlæg, skýjað með köflum og vægt frost, en skúrir og hiti 0 til 5 stig á S- og SA-landi.

Á föstudag og laugardag:

Norðaustanátt og smáskúrir eða él á A-verðu landinu, en þurrt V-til. Hiti 1 til 5 stig við SA- og A-ströndina, annars vægt frost.

Á sunnudag (Þorláksmessa):

Hæg breytileg átt og bjart veður, frost 0 til 7 stig.

Á mánudag (aðfangadagur jóla):

Útlit fyrir suðvestanátt með rigningu eða slyddu, einkum V-til á landinu. Hlýnandi veður.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×