Innlent

Ekki mikil breyting á veðrinu í dag

Mynd sem Lögreglan á Vestfjörðum birti í gær eftir að snjóflóð féll á Flateyrarveg.
Mynd sem Lögreglan á Vestfjörðum birti í gær eftir að snjóflóð féll á Flateyrarveg. Vísir/Lögreglan á Vestfjörðum
„Hérna á sunnanverðu landinu er þetta strekkingsnorðaustanátt og hvasst á köflum en þurrt og fínt,“ segir Óli Þór Árnason, vakthafandi veðurfræðingur hjá Veðurstofu Íslands, í samtali við fréttastofu. Hann segir þó enn úrkomu fyrir norðan og hvasst víða. Í byrjun dags muni mest snjóa á miðju Norðurlandi og Austfjörðum.

Á Vestfjörðum er allhvass vindur og éljagangur og býst Óli við að það muni halda áfram í dag.

Varðandi snjóflóðahættu segir Óli að í ljósi þess hvernig veðrið sé búði að vera síðustu daga sé algengt að það verði snjóflóðahætta á stöðum þar sem náð hefur að skafa í gil og fjöll á Vestur- og Norðurlandi. Viðbúið sé að einhver hætta verði á næstunni. Hins vegar verði auðveldara að meta ástandið og hve mikil hættan er þegar það byrjar að lægja og létta til.

Óli segir enn fremur að útlit sé fyrir ekki verði mikil breyting á veðrinu í dag að öðru leyti en að víðast hvar muni draga úr úrkomu. Frekari breytingar verði í kvöld og í nótt. Hins vegar gæti orðið mikill éljagangur á Norðurlandi á morgun, þó vindur verði orðinn hægur.

„Þau eru ekki alveg búinn að sjá fyrir endann á þessu enn þá,“ segir Óli.

Hann segir að mögulega geti farið að snjóa á Suðvesturhorninu í byrjun næstu viku. Það sé þó ekki víst.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×