Innlent

Snjókoma á höfuðborgarsvæðinu og herðir frost

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Ekki er þó búist við að snjórinn staldri lengi við í borginni.
Ekki er þó búist við að snjórinn staldri lengi við í borginni. Vísir/vilhelm
Áfram mun snjóa á Norðurlandi í dag líkt og síðustu daga. Útlit er fyrir talsvert frost á landinu á morgun og annað kvöld stefnir víða í snjókomu, m.a. á höfuðborgarsvæðinu. Þetta kemur fram í hugleiðingum veðurfræðings á Veðurstofu Íslands.

Í dag verða élin norðantil á landinu „með þéttara laginu“ í kringum Tröllaskaga, frá Skagafirði austur á Skjálfanda.

„En seint í kvöld og á morgun dregur úr ákefðinni. Á sama tíma fer veður kólnandi og er útlit fyrir talsvert frost um allt land á morgun,“ segir í hugleiðingum veðurfræðings.

Annað kvöld stefnir svo í snjókomu um landið vestanvert, þar á meðal á höfuðborgarsvæðinu. Ekki lítur þó út fyrir að snjórinn staldri lengi við þar eð spár gera ráð fyrir hlýnandi veðri og rigningu sunnanlands þegar líður á vikuna.

Veðurhorfur á landinu næstu daga:

Á mánudag:

Norðlæg átt 8-13 m/s A-ast, annars mun hægari. Él fyrir norðan, en þurrt sunnan heiða. Suðaustan 5-13 og snjókoma V-til á landinu undir kvöld. Frost 2 til 8 stig, en kaldara inn til landsins og herðir á frosti um kvöldið.

Á þriðjudag:

Vestlæg eða breytileg átt, 3-10 m/s og snjókoma eða él, einkum um V-vert landið fyrripartinn. Áfram kalt í veðri.

Á miðvikudag:

Hæg breytileg átt, léttskýjað og talsvert frost. Vaxandi suðaustanátt S-til undir kvöld, væta með ströndinni og hlýnar heldur.

Á fimmtudag:

Gengur í stífa austlæga átt og hlýnar með rigningu um S-vert landið, en þurrt fyrir norðan og hiti um og undir frostmarki þar.

Á föstudag:

Breytileg átt með dálítilli rigningu eða snjókomu á víð og dreif. Frost um mest allt land, en upp í 5 stiga hita með S- og V-ströndinni.

Á laugardag:

Útlit fyrir vaxandi suðaustanátt og lengst af þurrt veður.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×