Innlent

„Smávægilega“ vélarbilunin rannsökuð sem alvarlegt flugatvik

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Flugvél WOW Air.
Flugvél WOW Air. Vísir/Vilhelm
Vélarbilunin sem kom upp í vél WOW Air á leið til Baltimore þann 1. nóvember síðastliðinn og varð til þess að ákveðið var að snúa vélinni við og lenda aftur í Keflavík er rannsökuð sem alvarlegt flugatvik.

Þetta staðfestir Ragnar Guðmundsson hjá Rannsóknarnefnd samgönguslysa í samtali við Mbl.is. Þegar greint var frá biluninni á sínum tíma sagði að Svanhvít Friðriksdóttir, upplýsingafulltrúi WOW Air, að um smávægilega vélarbilun hafi verið um að ræða.

Segir Ragnar að við skoðun hafi komið í ljós að atvikið hafi reynst alvarlegra en í fyrstu var talið. F2 hættustigi var lýst yfir á flugvellinum en hættustig ræðst af stærð vélar og fjölda farþega. Björgunarsveitarfólk var í viðbragðsstöðu vegna málsins en útkallið var afturkallað þegar flugvélinni var lent án vandræða.

Á vefnum Aviation Herald kemur fram að flugmenn vélarinnar hafi neyðst til þess að slökkva á öðrum hreyfli vélarinnar vegna olíuleka og var olíumagnið orðið það lítið að slökkva þurfti á hreyflinum. Við skoðun eftir lendingu hafi einnig komið í ljós að olía hafði lekið úr hinum hreyflinum, án þess þó að slökkva hafi þurft á honum.

Málið er nú í rannókn hjá Rannsóknarnefnd samgönguslysa.


Tengdar fréttir

Flugvél WOW Air snúið við vegna bilunar

Vél WOW Air á leið frá Keflavíkurflugvelli til Baltimore í Bandaríkjunum var snúið við skömmu eftir flugtak upp úr klukkan fjögur í dag. Ástæðan mun vera bilun í hreyfli vélarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×