Erlent

Breskur doktorsnemi dæmdur í lífstíðarfangelsi fyrir njósnir

Atli Ísleifsson skrifar
Matthew Hedges með eiginkonu sinni Daniela Tejada.
Matthew Hedges með eiginkonu sinni Daniela Tejada. AP
Dómstóll í Sameinuðu arabísku furstadæmunum hefur dæmt 31 árs gamlan breskan doktorsnema í lífstíðarfangelsi fyrir njósnir.

Matthew Hedges, sem stundað hefur nám í Háskólanum í Durham í Englandi, hafnaði ásökunum og segist hafa verið við rannsóknarvinnu. Hann var handtekinn á flugvellinum í Dubai í maí síðastliðinn.

Dómari í Abu Dhabi sagði Hedges hafa njósnað fyrir hönd breskra stjórnvalda, en fjölskylda Hedges segir hann hafa verið dæmdan eftir að hafa skrifað undir falska játningu.

Bresk stjórnvöld beita sér

Theresa May, forsætisráðherra Bretlands, og utanríkisráðherrann Jeremy Hunt segjast nú reyna að ná sambandi við stjórnvöld í furstadæmunum vegna málsins. Segist Hunt „mjög sleginn og vonsvikinn“ vegna málsins, að því er fram kemur í frétt BBC.

Í yfirlýsingu frá fjölskyldu Hedges var hann yfirheyrður án þess að vera með lögmann sér við hlið, fyrstu sex vikurnar eftir handtöku. Var hann látinn skrifa undir skjal á arabísku þar sem hann reyndist játa sakargiftir. „Matthew kann hvorki að tala né lesa arabísku,“ segir í yfirlýsingu frá fjölskyldunni.

Lífstíðardómur í Sameinuðu arabísku furstadæmunum merkir 25 ára fangelsisvist og yrði honum vísað úr landi að lokinni afplánun.

Nánar má lesa um málið í frétt BBC.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×