Innlent

Töluvert tjón þegar tjaldið fauk af porti Hafnarhússins

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Stangir sem halda tjaldinu uppi skemmdust einnig.
Stangir sem halda tjaldinu uppi skemmdust einnig. Vísir/vilhelm
Töluvert tjón varð þegar tjald, sem strengt er yfir portið í Hafnarhúsi Listasafns Reykjavíkur í miðbænum, rifnaði í óveðrinu sem gekk yfir landið í gærkvöldi og nótt.

Áslaug Guðrúnardóttir, markaðs- og kynningarstjóri Listasafnsins, segir í samtali við Vísi að umrætt tjald, sem safnið leigi af Seglagerðinni Ægi, hafi farið afar illa í veðrinu. Þá brotnuðu einnig að minnsta kosti tvær stangir sem halda tjaldinu uppi.

„Tjaldið er alltaf tekið niður á milli viðburða en það náðist ekki að taka það niður í gær út af veðrinu og það rifnaði í tætlur einhvern tímann í nótt,“ segir Áslaug.

Ekki er enn búið að meta tjónið að sögn Áslaugar, enda atvikið tiltölulega nýskeð. Hún segir þó alveg á hreinu að tjónið sé töluvert.

Stefnt er að því að hefja viðgerðir um leið og veðrinu slotar á höfuðborgarsvæðinu. Portið í Hafnarhúsinu hefur í gegnum tíðina aðallega verið leigt undir viðburði en stöku sinnum eru settar þar upp sýningar á vegum Listasafnsins.

Aftakaveður gekk yfir landið í gær og í nótt. Greint var frá því í morgun að björgunarsveitir og lögregla á höfuðborgarsvæðinu hefðu sinnt mörgum útköllum þar sem byggingarefni, þakplötur, girðingar, lausir munir, jólatré og fleira fóru að fjúka og valda skemmdum á bílum og öðru sem fyrir varð. Gert er ráð fyrir að veður mildist vestantil- og suðaustantil eftir hádegi á morgun en veðurfræðingur hjá Veðurstofu Íslands sagði í morgun að óveðrið á Norðurlandi væri komið til að vera.

Tjaldið rifnaði í tætlur, að sögn Áslaugar.Vísir/vilhelm

Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×