Erlent

Mætti ekki til minningarathafnar vegna rigningar

Andri Eysteinsson skrifar
Donald Trump undir regnhlíf fyrir utan aðsetur Frakklandsforseta í dag.
Donald Trump undir regnhlíf fyrir utan aðsetur Frakklandsforseta í dag.
Bandaríkjaforseti, Donald Trump, aflýsti í morgun fyrirhugaðri heimsókn sinni í Belleau kirkjugarðinn, 85km austur af París, höfuðborgar Frakklands.

Forsetinn ásamt eiginkonu sinni átti að mæta á minningarathöfn um þá hermenn Bandaríkjanna sem létu lífið í fyrri heimsstyrjöldinni. Washington Post greinir frá.

Hvíta húsið gaf út yfirlýsingu sem í segir að veður hafi komið í veg fyrir heimsókn forsetans. Í stað forsetans var starfsmannastjóri Hvíta hússins, fyrrum hershöfðinginn Jon Kelly, sendur á staðinn ásamt fylgdarliði.

Ákvörðun forsetans féll ekki í kramið hjá gagnrýnendum sem sökuðu hann um óvirðingu í garð þeirra sem létu lífið fyrir Bandaríkin í styrjöldinni.


Hundrað ár eru liðin frá stríðslokum en 11. nóvember 1918 skrifuðu Bandamenn og Þjóðverjar undir vopnahlé í bænum Compiegne og með því lauk hernaði í fyrri heimsstyrjöldinni. Meðal þeirra sem gagnrýndu forsetans var breski þingmaðurinn Nicholas Soames, afabarn Winston Churchill.

Samkvæmt Jill Colvin blaðamanni Associated Press hafði verið áætlað að forsetinn færi með þyrlu til minningarathafnarinnar en rigning hafi sett strik í reikninginn, þá hafi eini möguleikinn verið að keyra á staðinn en forsetanum þarf að fylgja mikil bílalest.



Ákveðið var því að senda starfsmannastjórann Kelly á staðinn en hann þarf ekki slíka bílalest í för með sér.

Annars staðar í Frakklandi létu Angela Merkel, kanslari Þýskalands og Emmanuel Macron, forseti Frakklands, veðrið ekki stöðva sig og mættu til athafnar í Compiegne.

Forsætisráðherra Kanada, Justin Trudeau, mætti einnig til minningarathafnar en kanadískra hermanna var minnst í Vimy í norðurhluta Frakklands.

Á morgun, þegar hundrað ár eru liðin frá stríðslokum verða leiðtogarnir fjórir auk á sjöunda tug annara þjóðarleiðtoga viðstaddir athöfn við Sigurbogann í París í tilefni 100 ára frá lokum fyrri heimsstyrjaldarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×