Erlent

Hvatti aðra þjóðarleiðtoga til dáða á aldarafmæli stríðsloka

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Emmanuel Macron, forseti Frakklands, hvatti þjóðarleiðtoga heimsins til þess að byggja upp vonir í stað þess að ala á ótta í garð annarra þjóða í ræðu í París þar sem þess var minnst að 100 ár eru liðin frá lokum fyrri heimsstyrjaldarinnar. BBC greinir frá.

Um 70 þjóðarleiðtogar voru samankomnir í París, þar á meðal Angela Merkel Þýskalandskanslari og Donald Trump, forseti Bandaríkjanna. Minningarathöfn var haldinn við Sigurbogann í París þar sem þess var minnst að á þessum degi fyrir einnig öld var skrifað undir vopnahlé á milli stríðandi fylkinga í átökunum.

Haldin verður sérstök friðarráðstefna í París síðar í dag en meðal þeirra sem taka þátt í henni er Vladimir Pútín, forseti Rússlands.

Hópur mótmælenda setti svip sinn á minningarathöfnina en tveir berbrjósta mótmælendur voru handteknar er þær reyndu að komast að bílalest Trump Bandaríkjaforseta. Tilheyra þær samtökunum Femen en önnur konan komst í návígi við bílalestina áður en hún var handtekin.

Stríðið, sem kallað var Stríðið sem átti að binda endi á öll stríð, stóð yfir frá árinu 1914 til 1918. Það hófst í Evrópu á milli Miðveldanna svokölluðu, Þýskalands og Austurríki-Ungverjalands, og Bandamanna, Frakka, Breta og Rússa áður en að fleiri Evrópuþjóðir bættust í hóp stríðandi fylkinga.

Stríðið breiddist svo út um heimsbyggðina en alls er talið að 16 milljónir, þar af níu milljón hermenn og sjö milljónir almennra borgara, hafi látist í stríðinu.




Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×