Skoðun

Núll

Guðmundur Brynjólfsson skrifar
Nú skrifa ég pistil sem meiðir ekki, særir ekki nokkurn mann (hefði ég átt að skrifa, manneskju? – er ég strax kominn í vandræði?). Öll málefni sem varða nokkru verða því látin lönd og leið í þetta sinn (eða, er ég þá um leið að útiloka vissa jaðarhópa? Er þetta að klikka hjá mér?). Gott og vel (ég tek bara svona til orða, „gott og vel“ ég geri mér grein fyrir því að það hafa það ekki allir jafn gott og fólki líður misvel).

Pistlar sem þessir eiga ekki að vera ögrandi. Þeir eiga ekki að vekja til umhugsunar og alls ekki hrista upp í neinum (hér er ég ekki að tala um bókstaflega hristingu, ekki um líkamlegt ofbeldi – íslenska tungumálið hefur bara þennan möguleika að tala um „að hrista upp í“, þetta er óskylt því sem átt er við með t.d. „shaken baby syndrome“ sem svo er kallað á útlensku – það er ofbeldi sem ber að fordæma). „Bakþankar“ heita einmitt svo því þar eiga að birtast þankar sem eiga heima bakatil, og fólk á því ekki að leiða hugann að (ég tek fram að þegar ég segi að þankar „eigi heima bakatil“ er ég ekki með neinum hætti að niðra rassa og alls ekki að veitast að þeim sem hafa þá líkamshluta í hávegum (kannski var þetta heldur ekki passandi?)).

Þegar ég ákvað að kalla þennan pistil Núll vissi ég að ég gæti átt það á hættu að einhver sæi út úr því orði tölustafinn núll, og því um leið farið að túlka það gat með klámfengnum hætti, en ég verð bara að viðurkenna þá dirfsku að ég tók áhættuna og lét slag standa (með standa er ég ekki að vísa til …).

Það er vandlifað – og skrifað.




Skoðun

Skoðun

BRCA

Elín Íris Fanndal Jónasdóttir skrifar

Sjá meira


×