Innlent

Verk Vegagerðarinnar að jafnaði 7-9% fram úr áætlun

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Framkvæmdir við Bræðratunguveg árið 2009.
Framkvæmdir við Bræðratunguveg árið 2009. Mynd/Vegagerðin
Stór verk Vegagerðarinnar hafa undanfarin ár farið 7-9% fram úr kostnaðaráætlun síðasta áratug, að því er fram kemur í frétt á vef stofnunarinnar. Að jafnaði hefur kostnaður farið 7% fram úr áætlun í hefðbundnum verkefnum í vegagerð og 9% fram úr áætlun í jarðgangaverkum.

Á tímabilinu reyndust sjö verk undir áætlun og sextán verk yfir áætlun. Þá voru flest verkanna innan tíu prósent yfir áætlun.

Í yfirliti yfir helstu verk Vegagerðarinnar síðasta áratug fóru framkvæmdir við Arnarnesveg á vegkafla frá Reykjanesbraut að Fífuhvammsvegi árin 2015-16 mest fram úr kostnaðaráætlun, eða 42,5%. Lagt var upp með að verkið kostaði 865 milljónir króna en kostnaður varð að endingu 1,233 milljarður króna.

Þá varð endanlegur kostnaður við Bræðratunguveg um Hvítá árin 2009-12 aðeins 66% af upphaflegri kostnaðaráætlun. Áætlun gerði ráð fyrir rétt rúmum tveimur milljörðum í verkið en það kostaði rúman 1,3 milljarð.

„Vegagerðin telur sig geta vel við unað þó alltaf megi gera betur.  Við munum áfram reyna að gera sem raunhæfastar kostnaðaráætlanir og leggja okkur fram um að standast þær,“ segir í frétt Vegagerðarinnar.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×