Erlent

Annie Lööf fær umboð til stjórnarmyndunar

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Annie Lööf er formaður sænska Miðflokksins.
Annie Lööf er formaður sænska Miðflokksins. Getty/MICHAEL CAMPANELLA
Annie Lööf, formaður Miðflokksins í Svíþjóð, fékk í dag umboð til stjórnarmyndunar. Hún hefur fengið til þess viku með möguleika á framlengingu. Lööf segist þó ekki stefna að því sérstaklega að leiða slíka stjórn sjálf, það er verða forsætisráðherra. Hún segist heldur vilja einblína á málefnin í viðræðunum í leit að stjórn sem meirihluti þings myndi verja falli.

Afar snúin staða er á sænska þinginu eftir kosningarnar sem fram fóru 9. september síðastliðinn. Rauðgrænu flokkarnir náðu 144 þingsætum, borgaralegu flokkarnir 143 og Svíþjóðardemókratar 62.

Allt frá því að Stefan Löfven, formaður Jafnaðarmanna og starfandi forsætisráðherra, skilaði stjórnarmyndunarumboði sínu um í lok síðasta mánaðar tilkynnti þingforsetinn Andreas Norlén að hann myndi ekki veita neinum formanni nýtt umboð til stjórnarmyndunar.

Þess í stað boðaði hann leiðtoga flokkanna til hópviðræða út frá fjórum tillögum að nýrri stjórn og fóru þær viðræður fram í þarsíðustu viku. Eftir viðræðurnar greindi hann frá því að hann hugðist tilnefna Ulf Kristersson, leiðtoga sænska hægriflokksins Moderaterna, sem næsta forsætisráðherra og að þingið myndi í kjölfarið greiða atkvæði um hann.

Kristersson sagðist vilja mynda minnihlutastjórn síns flokks og Kristilegra demókrata í Svíþjóð. Atkvæðagreiðsla fór fram um Kristersson sem næsta forsætisráðherra á þinginu í gær og var honum hafnað. 195 þingmenn sögðu nei, 154 sögðu já. Fór því stjórnarmyndunarhringekjan aftur af stað sem nú hefur staðið í rúma tvo mánuði.

Að hámarki má sænska þingið greiða atkvæði um tillögu að forsætisráðherra fjórum sinnum áður en boða þarf til nýrra kosninga. Atkvæðagreiðslan um Kristersson var sú fyrsta í röðinni.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×