Fótbolti

Aron Einar: Slökkvum tvisvar á okkur

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Ísland tapaði 2-0 fyrir Belgíu í lokaleik liðsins í Þjóðadeild UEFA ytra í kvöld. Aron Einar Gunnarsson landsliðsfyrirliði var stoltur af frammistöðu liðsins.

„Já, ég er stoltur af liðinu í dag. Þetta var brekka og erfitt,“ sagði Aron Einar við Tómas Þór Þórðarson eftir leikinn.

„Við vitum hversu góðir á bolta Belgarnir eru og vissum að við þurftum að verjast mikið í leiknum.“

Frammistaða íslenska liðsins var nokkuð góð í leiknum en mörkin tvö sem liðið fékk á sig voru frekar klaufaleg.

„Það er hægt að setja út á ákvarðanatöku með boltann úti á vellinum, líka hjá mér sjálfum. En sterkt lið Belga sem við mættum, fengum gott færi í stöðunni 1-0, það er stutt á milli í þessu.“

„Tvisvar slökkvum við á okkur, þar á meðal ég. Ég reyni að finna Albert á svæði og þeir lesa mig. Þá koma þeir og refsa strax. Svona er að spila gegn svo sterku liði.“

„Það vantaði herslumuninn þegar við náum að breika á þá, og þetta er erfitt þegar það gengur ekki þegar við erum að spila við jafn sterkt lið.“

Aron virtist biðja um skiptingu snemma í seinni hálfleiknum og fór út fyrir hliðarlínuna til að fá aðhlynningu. Hann var hins vegar kominn aftur inn á stuttu síðar og spilaði allan leikinn.

„Fékk aðeins straum í ökklann sem ég var smeykur við, finn ekkert fyrir honum núna. Veit ekki hvað þetta er. En þetta slökkti kannski aðeins á mér í seinni hálfleik.“

„Ég er samt ekki að kvarta, svona var þetta bara,“ sagði Aron Einar Gunnarsson.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×