Fótbolti

Arnór Ingvi: Gott að fyrirvarinn var stuttur

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Arnór Ingvi Traustason kom óvænt inn í byrjunarlið íslenska landsliðsins í kvöld, Alfreð Finnbogason var í byrjunarliðinu en meiddist í upphitun.

„Þeir voru að týnast inn í klefa, ég í reitarbolta. Þá sagði Freysi [Alexandersson, aðstoðarlandsliðsþjálfari] mér að gera mig kláran. En mér fannst ég leysa þetta ágætlega,“ sagði Arnór Ingvi við Tómas Þór Þórðarson í leikslok í Belgíu þar sem Ísland tapaði 2-0.

„Það er gott að fá að vita þetta með svona stuttum fyrirvara, þarft ekki að hugsa jafn mikið um leikinn, ferð út í leikinn og nýtur þess að spila.“

Belgar eru efsta lið heimslistans og var ljóst að íslenska liðið ætti erfitt verkefni fyrir höndum. Strákarnir spiluðu þó heilt yfir vel þrátt fyrir tvö klaufaleg mörk.

„Þeir eru góðir og voru miklu meira með botlann, en við náðum samt að halda ágætlega í við þá.“

„Mér fannst nýtt kerfi ganga þokkalega,“ sagði Arnór en Hamrén stillti upp í 3-5-2 í kvöld. „Oft verið talað um það en mér fannst við leysa það ágætlega. Oft að sparka boltanum fram og enginn að taka við honum en við getum unnið í því og gert betur.“

„Það er leikur gegn Katar á mánudag sem við ætlum að vinna. Við erum að vanir því að vinna og það er svekkjandi að það hafa ekki verið sigurleikir hjá okkur í ár.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×