Innlent

Þrjár lægðir víkja fyrir stórri og mikilli lægð

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Það gæti verið vissara að hafa regngallann við höndina fyrir lægðir næstu daga.
Það gæti verið vissara að hafa regngallann við höndina fyrir lægðir næstu daga. Fréttablaðið/ernir
Þrjár lægðir eru nálægt landinu í dag og því mjög breytilegar vindáttir í kortunum. Lágskýjað og snjóél eða slydduél norðantil á landinu, en einnig má búast við stöku éljum suðvestanlands að því er segir í hugleiðingum veðurfræðings á Veðurstofu Íslands.

Lægðin sem er fyrir norðaustan land sækir í sig veðrið í kvöld með stífri vestanátt um landið norðaustanvert. Þegar líður á morgundaginn gefa allar lægðirnar eftir þegar stór og mikil lægð nálgast landið úr suðvestri með vaxandi norðaustnátt annað kvöld.

Í dag má reikna með norðlægri átt, 5-13 m/s en vestlægari á Austfjörðum. Skýjað og él eða slydduél við norðurströndina og á Vestfjörðum, stöku él suðvestantil annars þurrt.

Vestan 8-15 m/s norðaustantil á landinu í nótt og í fyrramálið, en annars hægari norðaustlæg eða breytileg átt. Vaxandi norðaustanátt annað kvöld og þykknar upp. Frost 0 til 5 stig til landsins, en um frostmark við ströndina.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×