Innlent

Þverpólitísk skilaboð um bólusetningar

Sighvatur Arnmundsson skrifar
Hildur Sverrisdóttir, varaþingmaður Sjálfstæðisflokksins.
Hildur Sverrisdóttir, varaþingmaður Sjálfstæðisflokksins. FRÉTTABLAÐIÐ/STEFÁN
„Ég held að það sé skynsamlegt skref að kerfið sjálft passi upp á að stoppa í götin sín megin. Svo verðum við að sjá hverju það skilar,“ segir Hildur Sverrisdóttir, varaþingmaður Sjálfstæðisflokksins, sem hefur lagt fram þingsályktunartillögu um stofnun starfshóps sem geri tillögur um hvernig auka megi hlutfall bólusetninga barna.

Gerir tillagan ráð fyrir að starfshópurinn hugi sérstaklega að úrbótum á verklagi við framkvæmd og utanumhald bólusetninga á heilsugæslustöðvum, meðal annars hvað varðar upplýsingagjöf og eftirfylgni.

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir segir það mjög gott að menn vilji leita leiða til að bæta þátttöku í bólusetningum sem mest. „Á móti kemur að það er þegar starfshópur í gangi sem er að vinna að þessu. Það yrði skrýtið ef skipaður yrði annar hópur um sama efni því þetta gæti orðið tvíverknaður. Þetta er samt jákvætt framtak.“

Hann segir að flutningsmenn tillögunnar hafi ekki haft samband við sig til að athuga hvað væri að gerast í þessum málum.

Í umræddum starfshópi sitja fulltrúar frá sóttvarnalækni, heilsugæslunni, rafrænni sjúkraskrá og hugbúnaðarfyrirtækinu Origo. „Þessi hópur á að skoða alla þessa þætti, bæði skráningu bólusetninga í grunninn og kerfið svo við getum merkt þá sem eru óbólusettir og kallað þá fram. Þannig að það er í rauninni verið að vinna þetta eins og tillagan gengur út á.“

Hvort þessi vinna skili árangri komi í ljós í árlegri skýrslu sóttvarnalæknis.

Hildur segist vita að þessi mál séu til skoðunar innan afmarkaðra embætta. „Ég taldi mikilvægt að þungi þingsins myndi standa að baki þeim lausnum sem verða fundnar innan kerfisins. Sérstaklega í ljósi þess að það hafi orðið átök á pólitískum vettvangi um leiðir í þessu. Við þurfum að senda þau þverpólitísku skilaboð að það sé mikilvægt að auka hlutfall bólusetninga barna.“

Bólusetningar barna hafa verið töluvert í umræðunni en sjálf lagði Hildur fram tillögu í borgarstjórn 2015 um að bólusetningar yrðu skilyrði fyrir leikskóladvöl. „Sú tillaga fékk ekki hljómgrunn og heldur ekki þegar nafna mín Hildur Björnsdóttir lagði hana fram í sumar. Það spannst mikil umræða um bólusetningarnar þegar ég lagði tillöguna fram á sínum tíma. Nokkrum vikum síðar lögðu þingmenn VG fram tillögu um að þessi mál yrðu skoðuð en hún dagaði uppi.“

Hildur segir að eftir að tillaga nöfnu hennar var felld í borgarstjórn hafi hún hugsað að nú væri mikilvægt að reyna að gera það sem hægt væri innan kerfisins til að reyna að auka hlutfall bólusetninga.

„Það kom fram í umræðunum að það væri hægt að gera ýmislegt innan kerfisins. Til dæmis að auka eftirlit heilsugæslunnar sem ætti þá að geta gripið þá sem eru ekki á móti bólusetningum en það ferst fyrir af einhverjum ástæðum.“




Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×