Innlent

Gæti skollið á stormur í kvöld og nótt

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Vindaspá Veðurstofunnar klukkan 4 næstu nótt lítur svona út.
Vindaspá Veðurstofunnar klukkan 4 næstu nótt lítur svona út. Mynd/Veðurstofa Íslands
Búast má við sunnan hvassviðri eða stormi, með slyddu eða rigningu og hlýnandi veðri en snjókomu til fjalla í kvöld og nótt. Gert er ráð fyrir vindhviðum um 35 m/s í vindstrengum við fjöll norðvestantil á landinu í nótt. Á morgun snýst svo í hægari suðvestanátt með skúrum og kólnandi veðri, að því er fram kemur í hugleiðingum veðurfræðings á vef Veðurstofu Íslands. Gul viðvörun Veðurstofu er í gildi á Breiðafirði og Miðhálendi þangað til á morgun.

Í dag er spáð fremur hægri austlægri átt og skýjað verður að mestu en norðan 10-15 m/s austast og stöku él norðaustantil fram eftir morgni. Vaxandi sunnanátt vestantil á landinu síðdegis.

Þá má búast við sunnan 15-23 m/s í nótt og slyddu eða rigningu. Hvassast verður um landið norðvestanvert en úrkomulítið á Austurlandi. Þá snýst í suðvestan 5-10 m/s með skúrum, og síðar éljum, á morgun en hvöss sunnanátt austantil fram á kvöld. Frost 1 til 6 stig en fer hlýnandi, hiti 2 til 7 stig á morgun.

Veðurhorfur á landinu næstu daga:

Á sunnudag:

Sunnan 13-20 m/s og rigning eða slydda, en úrkomulítið norðaustantil á landinu. Hiti 2 til 7 stig á láglendi. Snýst í suðvestan 5-10 með skúrum, og síðar éljum, með deginum og kólnar, fyrst vestanlands.

Á mánudag:

Fremur hæg suðlæg átt og stöku él, en bjart með köflum um norðanvert lanidð. Heldur hvassara og dálítil rigning austast á landinu. Hiti kringum frostmark.

Á þriðjudag:

Austlæg átt, víða 8-13 m/s og rigning eða slydda með köflum, einkum suðaustanlands en hægari vindur um landið suðvestanvert. Hiti nálægt frostmarki.

Á miðvikudag:

Fremur hæg austlæg átt og skúrir eða él, en þurrt norðaustantil á landinu. Hiti kringum frostmark.

Á fimmtudag:

Norðlæg eða breytileg átt og stöku skúrir eða él í flestum landshlutum. Hiti breytist lítið.  Á föstudag: Útlit fyrir hvassa suðaustanátt með rigningu á láglendi og hlýnandi veðri.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×