Erlent

Forsætisráðherra Sri Lanka rekinn vegna áforma um að ráða forsetann af dögum

Andri Eysteinsson skrifar
Maithripala Sirisena er forseti Srí Lanka.
Maithripala Sirisena er forseti Srí Lanka. EPA/ Justin Lane
Forseti Sri Lanka, Maithripala Sirisena greindi frá því í dag í yfirlýsingu í sjónvarpi að ástæða þess að hann ákvað að víkja Ranil Wickremesinghe úr embætti forsætisráðherra sé sú að ráðherra í ríkisstjórn hans sé grunaður um að hafa lagt á ráðin um að ráða Sirisena af dögum. AP greinir frá.

Vikið óvænt úr sæti forsætisráðherra

Wickremesinghe hafði verið vikið óvænt úr starfi síðasta föstudag og hafði verið gert að yfirgefa bústað forsætisráðherrans fyrir sunnudagsmorgun.

Fríðindi hans, bíll og öryggisgæsla hafði verið afturkölluð og lögregla sóttist eftir heimild um að bera hann út frá heimili sínu yfirgæfi hann það ekki á tilskyldum tíma.

Wickremesinghe hafði haldið því fram að brottrekstur hans væri óréttmætur og bryti gegn stjórnarskrá eyríkisins Srí Lanka.

Wickremesinghe krafðist þess að þing kæmi saman til að viðurkenna stöðu hans.

Forseti þingsins Karu Jayasuriya  hefur tekið málstað Wickremesinghe og segir hann réttmætan forsætisráðherra.

Fékk fyrrverandi forseta til liðs við sig

Sirisena tók hins vegar upp á því að fresta þingfundum um 3 vikur og skipaði fyrrverandi forsetann og forsætisráðherrann Mahinda Rajapaksa  í hans stöðu.

Ákvarðanir Sirisena hleyptu öllu í loft upp á Sri Lanka og er ástandið talið eldfimt. Nú hefur Sirisena útskýrt ákvörun sína.

Við yfirheyrslur á að hafa komið fram að ónefndur ráðherra í ríkisstjórn Wickremesinghe hafi ásamt öðrum lagt á ráðin um að ráða forsetann á dögum ásamt fyrrum varnarmálaráðherra.

Stuðningsmenn forsetans hafa undanfarnar vikur talað um mögulega tilraun til að ráða forsetann af dögum en yfirlýsing Sirisena í sjónvarpi fyrr í dag er fyrsta skiptið sem hann hefur tjáð sig um málið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×