Erlent

Yngsta milljarðamæringi Afríku rænt

Atli Ísleifsson skrifar
Forbes segir að eigur Mohammed Dewji séu metnar á einn og hálfan milljarð Bandaríkjadala, um 175 milljarða króna.
Forbes segir að eigur Mohammed Dewji séu metnar á einn og hálfan milljarð Bandaríkjadala, um 175 milljarða króna. Wikipedia commons
Lögregla í Tansaníu segir að hinum 43 ára Mohammed Dewji, sem hefur verið lýst sem yngsta milljarðamæringi Afríku, hafi verið rænt af hópi grímuklæddra manna í höfuðborginni Dar es Salaam.

BBC  hefur eftir lögreglu að Dewji hafi verið rænt fyrir utan líkamsræktarstöð hótels í hverfinu Oysterbay í höfuðborginni. Þrír hafa verið handteknir í tengslum við málið og segir lögregla að talið sé að tveir mannræningjanna hafi verið erlendir ríkisborgarar.

Ekki liggur fyrir um ástæður þess að Dewji var rænt. Ræningjarnir skutu úr byssum áður en ekið var á brott með Dewji.

Forbes segir að eigur Dewji séu metnar á einn og hálfan milljarð Bandaríkjadala, um 175 milljarða króna. Í skýrslu Forbes frá árinu 2017 var Dewji lýst sem yngsta milljarðamæringi Afríku.

Dewji hefur auðgast mikið á textílframleiðslu, kornvinnslu, matarolíugerð og sölu á drykkjum. Fjölskyldufyrirtæki hans starfrækir verslanir í sex ríkjum í álfunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×