Bíó og sjónvarp

Lækna-Tómas lék Dr. Tomas í stórmynd um voðaverk Breivik

Birgir Olgeirsson skrifar
Tómas Guðbjartsson ásamt einum af aðalleikurum myndarinnar, Jonas Strand Gravli, og Andra Wilberg Orrasyni.
Tómas Guðbjartsson ásamt einum af aðalleikurum myndarinnar, Jonas Strand Gravli, og Andra Wilberg Orrasyni. Tómas Guðbjartsson
Læknirinn Tómas Guðbjartsson fer með hlutverk í Netflix-myndinni 22. Júlí sem segir frá fjöldamorði Anders Behring Breivik í Osló og Útey í Noregi árið 2011. Í árásunum fórust samtals 77 manns, átta í sprengingunni í Osló og 69 í skotárásunum á Útey.

Leikstjóri myndarinnar er Paul Greengrass sem hefur leikstýrt þremur Bourne-myndum, með Matt Damon í aðalhlutverki, og stórmyndunum United 93 og Captain Phillips en þessar tvær síðarnefndu eru báðar byggðar á sannsögulegum atburðum líkt og 22. Júlí.

Greengrass vann handrit kvikmyndarinnar upp úr bókinni One of Us sem fjallar um ódæði Breivik og eftirmála þeirra.

Tómas Guðbjartsson greinir frá aðkomu sinni að myndinni á Facebook-síðu sinni.

Þar segir hann íslenska framleiðslufyrirtækið True North hafa beðið sig um að vera læknisfræðilegan ráðgjafa myndarinnar, en Tómas hefur áður sinnt slíku hlutverki í kvikmyndunum Eiðnum og Good Heart, eftir leikstjórana Baltasar Kormák og Dag Kára.

Hann segir Greengrass hafa síðar meir beðið hann um að taka að sér hlutverk bráða- og heilaskurðlæknis í myndinni sem gengur undir nafninu Dr. Tomas.

Tómas tók með sér skurðteymi af Landspítalanum og segir tökurnar hafa reynst afar krefjandi fyrir allt teymið. 

Íslandstenging myndarinnar er mikil því tökur á sjúkrahúsatriðunum fóru fram á sjúkrahúsinu í Keflavík og þá voru atriði sem áttu að gerast á Svalbarða í Noregi tekin upp á Siglufirði.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×