Erlent

Fyrirtæki sameinast gegn tollum Trump

Samúel Karl Ólason skrifar
Donald Trump, forseti Bandaríkjanna.
Donald Trump, forseti Bandaríkjanna. Vísir/AP
Fjölmörg hagsmunasamtök fyrirtækja í Bandaríkjunum ætla í hart við Donald Trump, forseta, og ríkisstjórn hans vegna tolla sem Bandaríkin hafa beitt og þá sérstaklega þeim tollum sem beitt hefur verið gegn Kína. Undanfarna mánuði hafa samtökin beitt áhrifum sínum á bak við tjöldin en nú ætla rúmlega sextíu samtök að taka höndum saman vegna mikilla kostnaðarhækkana í Bandaríkjunum.

Bandaríkin hafa lagt 25 prósenta tolla á fjölda vara sem innfluttar eru frá Kína og stendur til að auka tollana til muna.

Ríkisstjórn Trump hefur krafist þess að yfirvöld Kína tryggi öryggi bandarískrar tækni, dregið verði úr viðskiptahalla ríkjanna, að bandarískum fyrirtækjum verði veittur aukinn aðgangur að kínverskum mörkuðum og að dregið verði úr styrkjum til tæknifyrirtækja í Kína.

Í samtali við Reuters segir framkvæmdastjóri Information Technology Industry Council, sem inniheldur meðal annars Microsoft, Alphabet og Apple, að mikil vinna hafi verið unnin bakvið tjöldin á undanförnum mánuðum sem hafi gengið út á að sannfæra forsetann og ríkisstjórn hans um að tollar hjálpi ekki bandarískum fyrirtækjum. Nú verði sú vinna dregin fram í dagsljósið.



Auk þeirra eru mörg af stærstu fyrirtækjum landsins í samtökunum sem ætla að taka höndum saman.

Forsvarsmenn fjölmargra fyrirtækja í Bandaríkjunum eru sagðir vera að íhuga umfangsmiklar uppsagnir þar sem kostnaður hafi aukist til muna vegna tolla. Hjá samtökunum National Marine Manufacturers Association hefur kostnaður fyrirtækja aukist um allt að 35 prósent.

Bandalagið ætlar að beita sér sérstaklega í fimm ríkjum í aðdraganda þingkosninganna í nóvember. Ohio, Pennsilvaníu, Illinois, Indíana og Tennessee. Vonast er til þess að hægt verði að fá þingmenn til að beita Trump þrýstingi og fá hann til að fella tolla niður.

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×