Erlent

Bjóða Löfven á fund til að ræða stuðning við hægristjórn

Atli Ísleifsson skrifar
Ebba Busch Thor, leiðtogi Kristilegra demókrata, Ulf Kristersson, leiðtogi hægriflokksins Moderaterna, Jan Björklund, leiðtogi Frjálslyndra, og Annie Lööf, leiðtogi Miðflokksins.
Ebba Busch Thor, leiðtogi Kristilegra demókrata, Ulf Kristersson, leiðtogi hægriflokksins Moderaterna, Jan Björklund, leiðtogi Frjálslyndra, og Annie Lööf, leiðtogi Miðflokksins. Vísir/Getty
Leiðtogar borgaralegu flokkanna í Svíþjóð hafa boðið Stefan Löfven, forsætisráðherra og leiðtoga Jafnaðarmanna, til fundar til að ræða mögulegan stuðning við myndun ríkisstjórnar bandalags borgaralegu flokkanna. Sá stuðningum myndi fela í sér að Jafnaðarmenn myndu verja stjórnina falli.

Frá þessu greina þau Ulf Kristersson, leiðtogi hægriflokksins Moderaterna, Annie Lööf, leiðtogi Miðflokksins, Ebba Busch Thor, leiðtogi Kristilegra demókrata og Jan Björklund, leiðtogi Frjálslyndra, í grein sem birtist í Dagens Nyheter í dag. Leiðtogarnir hafa boðað til blaðamannafundar vegna þessa boðs klukkan 9 að íslenskum tíma.

Í greininni skrifa leiðtogarnir að rauðgrænu flokkarnir séu nú með tvo þingmenn umfram borgaralegu flokkana, en að stjórnarflokkarnir – Jafnaðarmenn og Græningjar – hafi fengið færri atkvæði og að því séu borgaralegu flokkarnir stærstir og eigi að mynda nýja ríkisstjórn.

Erfið staða er uppi í sænskum stjórnmálum eftir að hvorug stóru fylkinganna náði meirihluta á þingi og Svíþjóðardemókratar, sem reka harða stefnu í innflytjendamálum, náðu um 18 prósent atkvæða.

Ræða mikilvæg mál

Borgaralegu flokkarnir stefna að því að mynda stjórn en segjast leiðtogar þeirra hafa ákveðið að bjóða Löfven til samtals til að ræða samstarf milli blokkanna þegar kemur að mikilvægum málum. Nefna leiðtogar borgaralegu flokkanna sérstaklega innflytjendamál, húsnæðismál, málefni eldri borgara og öryggis- og varnarpólitík.

Endanleg úrslit liggja enn ekki fyrir en þau Kristersson, Lööf, Busch Thor og Björklund segja að þau muni áfram leita stuðnings Löfven, verði endanleg niðurstaða kosninganna sú að borgaralegu flokkarnir hafi náð fleiri þingsætum en rauðgræna blokkin. Þeir séu hins vegar ekki reiðubúnir að vera veita Svíþjóðardemókrötum eða Vinstriflokknum áhrif.

Tilnefna nýjan þingforseta

Þing kemur saman þann 24. september næstkomandi og segjast leiðtogar borgaralegu flokkarnir ætla að kanna stuðning við sitjandi stjórn við fyrsta tækifæri, hafi Löfven þá ekki þegar sagt af sér. Ætli þeir sameiginlega sér að tilnefna nýjan þingforseta, en það er þingforseti sem tilnefnir svo forsætisráðherra sem þingið greiðir atkvæði um.

Löfven eða Jafnaðarmenn hafa enn ekki tjáð sig um þetta boð leiðtoga borgaralegu flokkanna.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×