Skoðun

Hvert stefnir Reykjavík?

Eyþór Arnalds skrifar
Margir bundu þær vonir við Viðreisn að hugað yrði að þörfum atvinnulífsins í borginni. Mörg fyrirtæki sligast undan háum fasteignasköttum sem hafa hækkað mikið. Lofað er lækkun um 0,05% en bara í lok kjörtímabilsins. Gagnast fólki kannski á næsta kjörtímabili en þangað til hækkar fasteignamat og húsaleiga. Fáir möguleikar eru fyrir stofnanir og fyrirtæki á að fá lóðir í Reykjavík. Íslandsbanki fór í Kópavog. Sýslumaðurinn á höfuðborgarsvæðinu fór í Kópavog. WOW er að fara í Kópavog.

Skiptir þetta máli? Já. Í fyrsta lagi missum við störf annað og veikjum þar með borgina sem búsetukost. Í öðru lagi missir borgin tekjur. Í þriðja lagi eykur þetta enn á samgönguvandann sem er í eðli sínu skipulagsvandi. Við lögðum til að Keldnalandið yrði skipulagt fyrir stofnanir og fyrirtæki. Þannig getum við endurheimt samkeppnishæfni borgarinnar í atvinnumálum sem hefur hrakað á síðustu árum. Ekkert slíkt er að finna í stefnu þeirra flokka sem nú fara með völd.

Það sem vantar

Það er ekki bara að helsta kosningaloforð Samfylkingarinnar „Miklabraut í stokk“ hafi horfið. Lítið er að finna um áherslur Viðreisnar í skólamálum, en fyrir kosningar var þessu lofað: „Við ætlum að draga úr miðstýringu og auka faglegt frelsi grunnskólakennara til að gera tilraunir með ólík kennsluform.“ Nú er sagt: „Megináhersla verður lögð á borgarreknar menntastofnanir.“ Ekki er að sjá að auka eigi faglegt frelsi og styrkja sjálfstæða skóla. Ekki er að finna nein markmið um skuldalækkun. Eða markmið um hagræðingu. Engin markmið eru um skilvirkari stjórnsýslu. Hvað þá um árangur í skólamálum. Markmið í ferðatíma og um minnkun tafatíma finnast ekki.

Við borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins lögðum fram tillögu um að loftgæði fari ekki yfir heilsufarsmörk. Það var samþykkt sem markmið. Við munum áfram stunda málefnalega baráttu fyrir bættri borg og benda á ágalla. Koma með málefnalegar tillögur til lausna. Það er okkar hlutverk.



Höfundur er borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins.




Skoðun

Skoðun

BRCA

Elín Íris Fanndal Jónasdóttir skrifar

Sjá meira


×