Erlent

Dómaraefni Trump ber af sér sakir um kynferðisbrot

Kjartan Kjartansson skrifar
Kavanaugh verður nær örugglega skipaður dómari við Hæstarétt Bandaríkjanna, hvað sem ásökunum líður.
Kavanaugh verður nær örugglega skipaður dómari við Hæstarétt Bandaríkjanna, hvað sem ásökunum líður. Vísir/EPA
Brett Kavanaugh, hæstaréttardómaraefni Donalds Trump Bandaríkjaforseta, segir að ekkert sé hæft í ásökunum um að hann hafi brotið kynferðislega á skólasystur sinni í framhaldsskóla. Bandaríkjaþing metur nú hæfi Kavanaugh til að taka sæti í Hæstarétti Bandaríkjanna.

Demókratar í dómsmálanefnd öldungadeildar Bandaríkjaþings sem fjallar um tilnefningu Kavanaugh segja að þeim hafi borist upplýsingar um meint kynferðisbrot hans gegn stúlku á framhaldsskólaárum hans. Þeir hafa vísað málinu til alríkislögreglunnar FBI, að því er segir í frétt Reuters.

Konan, sem ekki hefur verið nafngreind, sakar Kavanaugh um að hafa reynt að þröngva sér upp á hana í teiti. Kavanaugh hafi haldið henni fastri og haldið fyrir vit hennar áður en henni tókst að losna undan honum.

„Ég hafna þessum ásökunum afdráttarlaust og tvímælalaust. Ég gerði þetta ekki í framhaldsskóla né nokkru sinni,“ sagði Kavanaugh í yfirlýsingu sem Hvíta húsið sendi frá sér vegna ásakananna.

Þrátt fyrir þetta telja repúblikanar, sem eru í meirihluta í öldungadeildinni, ekki ástæðu til að fresta umfjöllun þingsins um skipan Kavanaugh. Talsmaður Chucks Grassley, formanns dómsmálanefndarinnar, segir að atkvæðagreiðsla nefndarinnar fari fram eins og áætlað var á fimmtudag.

Allt útlit er fyrir að skipan Kavanaugh verði staðfest í öldungadeildinni á næstu vikum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×