Innlent

Hitinn gæti farið upp í allt að 15 stig

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Það er spáð fínu veðri í höfuðborginni í dag.
Það er spáð fínu veðri í höfuðborginni í dag. vísir/vilhelm
Það verður bjart og fallegt veður á Suður- og Vesturlandi í dag og getur hitinn farið upp í allt að 15 stig þegar best lætur í sólinni.

Þetta segir í hugleiðingum veðurfræðings á vef Veðurstofu Íslands en annars staðar á landinu verður skýjað og einnig smá væta. Þá verður svalara norðan og austan til.

Á morgun er spáð þokkalegasta veðri og víða bjartviðri eða skýjuðu með köflum en þurrt víðast hvar.

„Hins vegar má búast við strekkings vindi við suður- og vesturströndina og ekki verður langt í úrkomuna, en spár gera ekki ráð fyrir að hún nái inn á morgun nema þá bara i mýflugumynd allra vestast,“ segir á vef Veðurstofunnar.

Veðurhorfur í dag og næstu daga:

Hæg norðlæg átt og lítilsháttar væta N- og A-til, en annars bjartviðri. Hiti 6 til 15 stig, hlýjast syðst.

Vaxandi austan- og síðar suðaustanátt í nótt og á morgun, víða 8-15 m/s en mun hægari um landið N- og A-vert. Skýjað með köflum eða bjartviðri og þurrt víðast hvar. Hiti 7 til 15 stig, svalast við A-ströndina.

Á fimmtudag:

Suðaustan 10-15 m/s og úrkomulítið V-lands, en annars hægari og víða léttskýjað. Hiti 9 til 15 stig, hlýjast á N-landi.

Á föstudag og laugardag:

Suðaustan 8-13 m/s og lítilsháttar væta, en hægari og áfram bjartviðri fyrir norðan. Hiti víða 10 til 15 stig að deginum.

Á sunnudag og mánudag:

Hæg breytileg átt og rigning eða skúrir í flestum landshlutum. Áfram milt veður.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×