Erlent

Embættismenn Trump telja hann siðlausan og reyna að hemja verstu hvatir hans

Kjartan Kjartansson skrifar
Starfsmenn Hvíta hússins eru meðvitaðir um að Trump forseti sé óstöðugur og siðlaus, að sögn embættismannsins nafnlausa.
Starfsmenn Hvíta hússins eru meðvitaðir um að Trump forseti sé óstöðugur og siðlaus, að sögn embættismannsins nafnlausa. Vísir/EPA
Háttsettir embættismenn í ríkisstjórn Donalds Trump Bandaríkjaforseta vinna á bak við tjöldin að því að stöðva hluta af stefnumálum forsetans og hemja sumar verstu hvatir hans. Þetta skrifar háttsettur embættismaður sem vinnur fyrir Trump í sláandi aðsendri grein sem New York Times féllst á að birta nafnlausa. Staðhæfir höfundurinn meðal annars að ríkisstjórn Trump hafi jafnvel íhugað að koma honum frá.

Í greininni fullyrðir greinarhöfundur að Trump standi frammi fyrir ógn við forsetatíð hans sem enginn annar leiðtogi Bandaríkjanna hefur upplifað í seinni tíð. Ástæðan sé ekki aðeins rannsóknin á því hvort að forsetaframboð hans hafi átt í samráði við útsendara rússneskra stjórnvalda eða að flokkur hans gæti misst meirihluta sinn í neðri deild þingsins.

„Vandamálið, sem hann virðist ekki gera sér grein fyrir að fullu, er að margir háttsettir embættismenn í hans eigin ríkisstjórn vinna ötullega að því innan frá að hindra hluta stefnumála hans og verstu tilhneigingar hans,“ skrifar greinarhöfundurinn nafnlausi sem segist vera einn þessara embættismanna.

Í athugasemd með greininni færir New York Times rök fyrir því hversu vegna blaðið samþykkti að birta greinina án nafns höfundar. Blaðið viti hver höfundurinn er en starf hans væri í hættu ef það væri opinberað. Nafnleysi sé eina leiðin sem blaðið geti fært lesendum sínum það sem það telur mikilvægt sjónarhorn.

Segir orsökina siðleysi Trump

Ónefndi embættismaðurinn segir að hann og félagar hans vilji að ríkisstjórn Trump vegni vel og telji að sum stefnumál hennar hafi þegar gert Bandaríkin öruggari og aukið velmegun. Þeir telji hins vegar frumskyldu sína vera við landið en forsetinn hafi haldið áfram að hegða sér á hátt sem skaði heilsu lýðveldisins.

„Þess vegna hafa margir embættismenn Trump svarið þess eið að gera það sem við getum til þess að vernda lýðræðislegar stofnanir okkar á meðan við komum í veg fyrir vanráðnari hvatir herra Trump þar til hann lætur af embætti,“ skrifar höfundurinn.

Rót vandans segir hann vera siðleysi forsetans. Hver sem þekki Trump viti að hann sé ekki bundinn af nokkrum grundvallarreglum. Forsetinn hafi lítinn áhuga á hugsjónum íhaldsmanna eins og frjálsum, markaði, frjálsu fólki og frjálsum hugsunum. Hann hafi jafnvel vegið að þeim.

Fyrir utan orðræðu forsetans gegn fjölmiðlum sé hann almennt andsnúinn viðskiptum og lýðræði.

Jákvæðu hliðar forsetatíðar Trump telur greinarhöfundurinn vera afnám reglna, skattalækkanir, aukin hernaðarútgjöld og fleira. Þeir sigrar hafi hins vegar unnist þrátt fyrir stjórnunarstíl forsetans, ekki vegna hans. Stíll forsetans sé hvatvís, fjandsamlegur, smásálarlegur og óskilvirkur.

Fullyrðir höfundurinn að flestir embættismenn og yfirmenn ríkisstofnana furði sig reglulega á orðum og æði forsetans. Þeir reyni að einangra sig frá duttlungum hans. Fundir með forsetanum fari langt út fyrir efnið og af sporinu og hann sé gjarn á að endurtaka sömu reiðilestrana. Hvatvísi hans leiði til hálfbakaðra, illa upplýstra og stundum háskalegra ákvarðana sem síðar þarf að draga til baka.

Grein embættismannsins dregur upp mynd af Hvíta húsinu þar sem starfsmenn og embættismenn reyna hvað þeir geta að hafa vit fyrir forsetanum og koma í veg fyrir að hann valdi landinu skaða.Vísir/Getty

„Fullorðnir einstaklingar“ í herberginu með Trump

Í miðjum glundroðanum fullyrðir embættismaðurinn að starfsmenn Hvíta hússins geri sitt besta til að halda slæmum ákvörðunum innan veggja þess þó að það hafi ekki alltaf tekist. Þó að það sé lítil huggun fyrir Bandaríkjamenn þá megi þeir vita að það séu „fullorðnir í herberginu“.

„Og við erum að reyna að gera það sem er rétt jafnvel þegar Donald Trump vill það ekki,“ segir í greininni.

Afleiðingin af þessu ástandi er hins vegar nokkurs konar tveggja laga forsetaembætti, að sögn greinarhöfundar. Í utanríkismálum dáist Trump forseti til dæmis að einræðisherrum og einvöldum eins og Vladímír Pútín Rússlandsforseta og Kim Jong-un, einræðisherra Norður-Kóreu, en hafi lítinn áhuga á að rækta tengslin við bandamenn.

Ríkisstjórnin utan Trump reki hins vegar aðra stefnu þar sem lönd eins og Rússland séu gagnrýnd fyrir afskipti sín og refsað. Hún vinni einnig með bandamönnum sem jafningjum í stað þess að hæðast að þeim eins og andstæðingum.

Trump hafi til dæmis verið tregur til að reka rússneska erindreka úr landi í kjölfar þess að eitrað var fyrir rússneskum fyrrverandi njósnara á Bretlandi í mars. Forsetinn hafi kvartað við samstarfsmenn sína vikum saman að hafa verið dreginn út í átök við Rússland og óánægju með refsiaðgerðir Bandaríkjanna gegn Rússlandi.

Þjóðaröryggisráð hans hafi aftur á móti vitað betur um mikilvægi þess að láta stjórnvöld í Kreml svara til saka.

„Þetta er ekki handbragð svokallaðs djúpríkis. Þetta er handbragð stöðugs ríkis,“ skrifar embættismaðurinn en Trump hefur tuggið upp samsæriskenningar um að „djúpríki“ embættismanna grafi undan honum á bak við tjöldin.

Trump hafði ímugust á John McCain heitnum. Greinarhöfundurinn lofar öldungadeildarþingmanninn sérstaklega.Vísir/EPA

Íhuguðu að setja forsetann af

Greinarhöfundurinn segir að meðlimum ríkisstjórnarinnar hafi verið svo brugðið yfir „óstöðugleikanum“ sem þeir sáu að þeir hafi hvíslað sín á milli um að virkja 25. grein stjórnarskrárinnar. Hún hefur ríkisstjórninni möguleika á að setja forsetann af.

„En enginn vildi koma af stað stjórnarskrárkreppu. Þannig að við gerum það sem við getum til þess að stýra ríkisstjórninni í rétta átt þangað til þessu lýkur, með einum hætti eða öðrum,“ segir í greininni.

Helsta áhyggjuefnið telur höfundurinn ekki vera hvað Trump hafi get forsetaembættinu heldur hvað bandaríska þjóðin hafi leyft honum að gera sér.

„Við höfum sokkið svo djúpt með honum og leyft orðræðunni að tapa kurteisi,“ segir í greininni.

Vísar höfundurinn til Johns McCain, öldungadeildarþingmanns repúblikana, sem lést í síðasta mánuði sem talaði um mikilvægi þess að Bandaríkjamenn losuðu sig undan flokkadrættinum sem einkennir samfélagsumræðuna þar. Dást ætti að mönnum eins og McCain jafnvel þó að Trump óttist þá.

„Það er þögul mótspyrna innan ríkisstjórnarinnar hjá fólki sem velur að setja landið í fyrsta sæti,“ skrifar embættismaðurinn.

Uppfært 22:40 Trump gagnrýndi New York Times harðlega vegna greinarinnar og sagði höfund hennar „huglausan“. Svipaðan tón kvað við í yfirlýsingu sem Sarah Huckabee Sanders, blaðafulltrúi Hvíta hússins, gaf út. Þar var ekki þrætt fyrir það sem kemur fram í greininni en blaðið gagnrýnt fyrir birtingu hennar.

„Einstaklingurinn sem stendur að baki þessari grein hefur valið að blekkja frekar en að styðja réttkjörinn forseta Bandaríkjanna. Hann er ekki að setja landið í fyrsta sæti heldur sjálfan sig og sitt eigið egó ofar vilja bandarísku þjóðarinnar. Þessi bleyða ætti að gera það rétta í stöðunni og segja af sér,“ sagði Sanders.


Tengdar fréttir

Trump og félagar berjast gegn bók Woodward

Eftir hæga byrjun eru Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, og bandamenn hans komnir á fullt í að gagnrýna nýja bók blaðamannsins Bob Woodward sem heitir Ótti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×