Erlent

Kominn til meðvitundar eftir stunguárás á fram­boðs­fundi

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Bolsonaro á framboðsfundinum í gær.
Bolsonaro á framboðsfundinum í gær. vísir/epa
Jair Bolsonaro, frambjóðandi öfgahægrimanna í brasilísku forsetakosningum sem fram fara eftir mánuð, var stunginn á framboðsfundi sem hann kom fram á í ríkinu Minas Gerais í gær. Hann slasaðist alvarlega en er nú kominn til meðvitundar eftir stóra aðgerð sem hann undirgekkst á sjúkrahúsi í Rio de Janeiro.

Bolsonaro er ansi umdeildur stjórnmálamaður en er þó með mest fylgi samkvæmt könnunum. Hann hefur vakið reiði margra samlanda sinna fyrir rasíska og hómófóbíska orðræðu og kalla margir Brasilíumenn hann hinn brasilíska Trump.

Bolsonaro var í miðjum hópi stuðningsmanna sinna í gær þegar ráðist var hann. Árásarmaðurinn hljóp inn í þvöguna þar sem stuðningsmenn frambjóðandans báru hann á öxlunum til að fagna honum.

Stakk hann svo Bolsonaro sem særðist alvarlega og missti mikið blóð. Þannig rauf stungan æð í kvið hans og olli öðrum innvortis meiðslum.

Óljóst er hversu lengi Bolsonaro þarf að dvelja á spítalanum. Hann er á gjörgæslu og segja læknar hans ómögulegt að segja til um hvenær hann verði útskrifaður. Það gæti orðið eftir nokkra daga eða eftir nokkrar vikur.

Myndbönd sem deilt var á samfélagsmiðlum sýndu augnablikið þegar Bolsonaro var stunginn. Hann veifar til stuðningsmanna sinna en grípur svo allt í einu um kviðinn í miklum sársauka. Bolsonaro var í skotheldu vesti innan undir stuttermabol sínum en hnífurinn gekk undir vestið.

Hér fyrir neðan má sjá myndband sem breska blaðið Guardian deilir af atvikinu en rétt er að vara við myndskeiðinu.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×