Erlent

Trump hótar að draga Bandaríkin úr WTO

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Donald Trump hefur hrist upp í efnahagskerfi heimsins niðri.
Donald Trump hefur hrist upp í efnahagskerfi heimsins niðri. Vísir/EPA
Donald Trump Bandaríkjaforseti segist vilja draga Bandaríkin úr Alþjóðaviðskiptastofnuninni (WTO). Að hans mati er stofnunin ósanngjörn í garð Bandaríkjanna og segir forsetinn að ef ekki verði breytingar á framferði stofnunarinnar muni Bandaríkin segja skilið við samstarfið.

Alþjóðaviðskiptastofnunin var sett á laggirnar árið 1955 með það að markmiði að búa til reglur sem gilda um viðskipti aðildarríkjanna. Þá er henni einnig ætlað að draga úr hömlum á milliríkjaviðskiptum.

Í samtali við Bloomberg segir Trump að stofnunin hafi alltof oft tekið ákvarðanir sem gangi þvert á hagsmuni Bandaríkjanna. Hann viðurkennir þó að á síðustu árum hafi úrskurðir stofnuninnar í mörgum tilfellum verið hliðhollir Bandaríkjunum.

Trump viðraði fyrst hugmyndir um að draga úr Bandaríkin úr stofuninni í kosningabaráttu sinni árið 2016. Forsetinn lét hafa eftir sér fyrr á þessu ári að Alþjóðaviðskiptastofnunin hafi verið komið á fót til að gagnast öðrum löndum en Bandaríkjunum. Hann bætti við að stjórnvöld í Washington töpuðu næstum öllum málum sem rekin væru fyrir úrskurðarnefnd stofnunarinnar. 

Það stangast á við rannsóknir sem hafa sýnt fram á að Bandaríkin vinni 90% þeirra mála sem þau eiga aðild að.

Yfirlýsingar Bandaríkjaforseta eru þó í takt við þá utanríkisstefnu sem Trump hefur markað sér á síðasta ári. Hann hefur ýmist sett toll á innfluttar vörur eða hótað slíkum tollum til að tryggja hagsmuni bandarískra framleiðenda. Yfirlýsingar hans hafa hrist upp í efnahagskerfi heimsins, grandað alþjóðlegum viðskiptasamningum og búið til nýja. Í því samhengi má nefna nýjan samning Bandaríkjanna og Mexíkó, sem undirritaður var í vikunni.


Tengdar fréttir

Segir auðvelt að vinna viðskiptastríð

Ákvörðun ríkisstjórnar Donalds Trump Bandaríkjaforseta um að leggja innflutningstolla á ál og stál vekur reiði Evrópu, Kanada, Mexíkó, Kína og Brasilíu. Bandaríkjaforseti stendur fast á sínu og segir viðskiptastríð af hinu góða.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×