Skoðun

Hollustuhlaup

Guðmundur Brynjólfsson skrifar
Ég leit aðeins til Reykjavíkur í fyrradag, rétt um miðjan daginn, þegar síðustu svínfeitu kerlingarnar voru að renna sér fótskriðu, í eigin lýsi, í mark í einhverri hlaupavegalengd sem var þeim ofviða. Lærin á þeim eins og ormétin fírkantstré, dragandi rass og keppi.

Álengdar, hvetjandi, stóðu stútungs karlar í andnauð, pungsveittir með blóðrisa geirvörtur, þrútnir af áreynslu með síma á lofti að mynda sjálfa sig með þátttökupening um háls og skúturnar sínar sem stundu sig yfir marklínuna. Til léttis því fólki sem hafði snemma í vor, líklega í ölæði, tekið að sér að snara peningum yfir hálsinn á hlaupadýrunum.

Lækjargatan var eins og óeirðasvæðið við Alþingishúsið á þingsetningardegi, eða fjármarkaður í Stratford-upon-Avon; járngrindur í skipulagðri óreiðu, til þess að stía í sundur fólki og fénaði, sárfættum hlaupaköttum og gangandi lífsstílslausum skríl sem kann ekki að hlaupa – nema þá í spik, eða á sig.

Þau börn, sem foreldrar höfðu ekki þvingað til hlaupa, stóðu og horfðu í forundran á þessa orgíu og svipuðust um eftir bannmerki í umhverfinu; einhverju tákni um að þessi ósköp væru þeim forboðin – líkt og ljótu myndirnar í sjónvarpinu sem þau eru hrakin frá með harðri hendi.

Sjúkrabílar óku á ofsahraða eftir gangstéttum, því götur voru að mestu lokaðar, með deyjandi hlaupagikki sem ekki höfðu kunnað fótum sínum forráð – og alls ekki hugsun sinni – í viðleitni til að styðja gott málefni.

Andrúmsloftið mettað líkamslykt og útblæstri neyðarbifreiða – og manna. Veitingamenn báru stóla og borð út í herlegheitin svo fólk gæti setið þar og þjórað þangað til púðurlyktin síðar um kvöldið kæfði mannaþefinn.

Ég ók heim til að mæla blóðsykurinn í kettinum – og fitna.




Skoðun

Skoðun

BRCA

Elín Íris Fanndal Jónasdóttir skrifar

Sjá meira


×