Erlent

Skógareldar í Þýskalandi sprengja upp skotfæri úr seinni heimsstyrjöld

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Skógeraldar loga nú glatt suðvestur af Berlín, höfuðborg Þýskalands.
Skógeraldar loga nú glatt suðvestur af Berlín, höfuðborg Þýskalands. Vísir/AP
Skógareldar sem nú loga suðvestur af Berlín, höfuðborg Þýskalands, hafa valdið því að sprengiefni og skotfæri frá tímum síðari heimsstyrjaldarinnar, sem grafið var í skógum í nágrenni borgarinnar, hefur fuðrað í loft upp og gert viðbragðsaðilum erfitt fyrir við að ráða niðurlögum eldsins.

Enn liggur mikið magn skotfæra grafið í skóginum en það veldur því að slökkvilið á svæðinu getur ekki farið inn á þau svæði þar sem grunur leikur á að sprengihætta sé á ferðum. Viðbragðsaðilar á svæðinu hafa talað um að eldarnir nái yfir svæði á stærð við 500 knattspyrnuvelli.

Mögulega um íkvekju að ræða

Dietmar Woidke, fylkisstjóri Brandenburgarfylkis, sagði í samtali við AP að skotfærin á svæðinu væru afar hættuleg og að ekki mætti stíga til jarðar hvar sem væri á svæðinu. Því væri ekki hægt að koma nægilega nálægt eldinum og að af þeim sökum væri slökkvistarf talsvert erfiðara en ef um venjulega skógarelda væri að ræða. 

Eldurinn kviknaði á fimmtudaginn og er talinn eiga upptök sín á fleiri en einum stað, þannig að ekki er hægt að útiloka að um íkveikju sé að ræða. Yfirvöld á svæðinu rannsaka nú tildrög skógareldanna.

Eldarnir eru sagðir ná yfir svæði sem er á stærð við 500 knattspyrnuvelli.Vísir/AP


Hundruð hafa yfirgefið heimili sín

Þá hefur vindátt á svæðinu verið afar óhagstæð íbúum Berlínar en í nokkrum hverfum borgarinnar hefur íbúum verið ráðlagt að halda gluggum sínum lokuðum, þar sem sterkir vindar hafa blásið reyk frá skógareldunum í átt að höfuðborginni. Búið er að rýma hverfin sem mest hafa fundið fyrir áhrifum eldanna og hundruð hafa þurft að yfirgefa heimili sín. 

Yfir 600 viðbragðsaðilar, slökkviliðsmenn og hermenn, hafa tekið þátt í því að reyna að ráða niðurlögum eldsins. Búið er að loka hraðbrautum nálægt svæðinu þar sem eldarnir loga og þá hefur lestaferðum á svæðinu verið aflýst.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×