Erlent

Skaut tvær konur því hann taldi kvenkyns ökumenn vanhæfa

Sylvía Hall skrifar
Dagostino var handtekinn aðeins degi eftir að honum var sleppt gegn tryggingargjaldi.
Dagostino var handtekinn aðeins degi eftir að honum var sleppt gegn tryggingargjaldi. Fangelsið í Harrison-sýslu.
Nicholas Dagostino, 29 ára karlmaður frá bænum Katy í Texas, hefur verið handtekinn grunaður um að skjóta á kvenkyns ökumenn. Tvær konur hafa tilkynnt samskonar árásir til yfirvalda.

Dagostino hefur játað að hafa misst stjórn á skapi sínu í umferðinni í fimm skipti síðastliðna mánuði, þar á meðal eru skotárásirnar tvær.

Konurnar voru báðar skotnar í handlegginn þegar þær keyrðu nærri heimili Dagostino. Fyrra atvikið átti sér stað í mars, en það seinna í júlí. Báðar lýstu þær atvikum á þann veg að hafa verið að keyra og fundið skyndilega fyrir sársauka í handlegg og áttað sig á því að þær höfðu verið skotnar. Önnur konan er sögð vera heppin að vera á lífi, en litlu mátti muna að verr færi.

Þegar Dagostino var handtekinn í síðasta mánuði, aðeins degi eftir að hafa verið sleppt gegn tryggingargjaldi, sagðist hann hafa skotið seinni konuna, 39 ára gamla móður, í sjálfsvörn og að hún hefði tvisvar sveigt viljandi inn á akreinina sem hann ók á. Hann hafi því skotið hana því hann taldi hana vera ógn.

Facebook-færslur lýsa andúð á konum 

Rannsakendur í málinu hafa lagt fram Facebook-færslur frá Dagostino sem þeir segja gefi til kynna að hann hafi skotið kvenkyns ökumenn af handahófi. Þá telja þeir hann hafa „mjög neikvætt viðhorf til kvenna“. 



Dennis Palmer, rannsakandi í málinu, segir Dagostino hafa birt færslur þar sem hann kvartar undan kvenkyns ökumönnum, segir þær vanhæfar í umferðinni og þeirra eini tilgangur sé að „fæða karlkyns börn“. Á Instagram-reikningi sínum birti hann svo myndir af skotvopnum, meðal annars skammbyssunni sem hann notaði til þess að skjóta konurnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×