Erlent

Sendu ekki út yfirlýsingu að beiðni Trump

Hulda Hólmkelsdóttir skrifar
John McCain hefur verið minnst um helgina. Þessi mynd var tekin í Arizona, heimaríki öldungadeildarþingmannsins, í gær.
John McCain hefur verið minnst um helgina. Þessi mynd var tekin í Arizona, heimaríki öldungadeildarþingmannsins, í gær. vísir/getty
Donald Trump Bandaríkjaforseti kom í veg fyrir að yfirlýsing Hvíta Hússins vegna andláts öldungadeildarþingmannsins John McCain væri send út.

Frá þessu greinir The Washington Post. Í frétt miðilsins segir að yfirlýsingin hafi verið tilbúin og samþykkt en að Trump hafi farið gegn ráðgjöfum sínum og valið þess í stað að senda frá sér stutt tíst þar sem hvergi var minnst á afrek McCain í bandaríska hernum. 

Að sama skapi er ekki óalgengt að Hvíta húsið sendi frá sér myndbandsupptöku þar sem ævi og störf látinna öldungadeildarþingmanna eru reifuð. Fjölmiðlar vestanhafs segja að í tilfelli McCain hafi það hins vegar aldrei staðið til af hálfu Hvíta hússins.

Bæði forsetafrúin Melania Trump og varaforsetinn Mike Pence höfðu þó orð á þjónustu McCain sem er talinn stríðshetja vestanhafs.

Lengi hefur andað köldu á milli forsetans og John McCain og bað McCain sérstaklega um að forsetanum yrði ekki boðið að vera viðstaddur jarðaför sína.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×