Fótbolti

Spenntir fyrir því að geta kallað á milli stúkna í fyrsta sinn á kvennalandsleik

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Kallað á milli stúkna á Laugardalsvellinum.
Kallað á milli stúkna á Laugardalsvellinum. Vísir/Getty
Það ætla að margir að mæta í Laugardalinn á laugardaginn til að styðja á bak við íslenska kvennalandsliðið í gríðarlega mikilvægum leik á móti Þýskalandi.

Íslensku stelpurnar tryggja sig inn á HM með sigri en þær unnu fyrri leikinn 3-2 í Þýskalandi síðasta haust.

Miðasalan hefur gengið mjög vel og það stefnir í það að í fyrsta sinn verði fullur Laugardalsvöllur á kvennalandsleik.

Tólfan ætlar líka að mæta á sinn stað í N-hólfið á austari stúkunni og þar á bæ eru sumir orðnir spenntir.

Tólfumaðurinn Árni Þór Gunnarsson lýsir spenningi sínum á Twitter og hlakkar sérstaklega til þess að gera eitt sem aldrei hefur verið gert áður á kvennalandsleiks. Það er að kalla á milli stúkna eins og er gert á karlalandsleikjunum.

Önnur stúkan hefur bara verið notuð á kvennalandsleikjunum en nú verða báðar stúkurnar vonandi fullar með tilheyrandi stemmningu í Dalnum.

Það má sjá færslu Árna hér fyrir neðan. Vonandi tekst honum og hinum í Tólfunni að keyra stemmninguna snemma í gang í Laugardalnum á laugardaginn.





Leikur Íslands og Þýskalands hefst klukkan 15.00 á laugardaginn. Leikurinn verður í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport en vegleg umfjöllun verður líka bæði fyrir og eftir leik.

Íslenska landsliðið er með eins stigs forskot á Þýskaland þegar tveir leikir eru eftir. Sigur tryggir Íslandi HM-sætið en með jafntefli geta stelpurnar okkar komist beint á HM með sigri á Tékkum á þriðjudaginn kemur. Sá leikur fer einnig fram á Laugardalsvellinum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×