Erlent

CNN stendur við frétt um fundinn í Trump-turni

Samúel Karl Ólason skrifar
Donald Trump, forseti Bandaríkjanna.
Donald Trump, forseti Bandaríkjanna. Vísir/AP
Þrátt fyrir að heimildarmaður CNN hafi dregið í land með yfirlýsingar sínar um fund Donald Trump yngri, Jared Kushner, tengdasonar Trump, og Paul Manafort, þáverandi kosningastjóra Trump, með rússneskum aðilum í Trump-turni árið 2016 stendur miðillinn við frétt sína. Fréttin, frá 27. júlí, fjallaði um að Trump eldri, hefði mögulega vitað af fundinum fyrir fram og jafnvel sagt syni sínum að sækja fundinn, þvert á yfirlýsingar hans.



Í póstum sem Trump yngri fékk í aðdraganda fundarins segir berum orðum að hann hafi verið haldinn til þess að koma upplýsingum í þeirra hendur sem gætu skaðað framboð Hillary Clinton og að það sé liður í aðgerðum stjórnvalda Rússlands til að styðja framboð Trump. Slíkt er ólöglegt í Bandaríkjunum.

Trump hefur haldið því fram að hann hafi ekki vitað af fundinum fyrr en eftir á. Í frétt CNN sem um ræðir segir að Michael Cohen, lögmaður Trump til margra ára, hafi orðið vitni af því að Trump yngri sagði föður sínum frá fundinum áður en hann átti sér stað.

Lanny Davis, lögmaður Cohen, hefur nú stigið fram og sagt að hann hafi verið heimildarmaður CNN vegna fréttarinnar. hann segist hins vegar ekki vera viss í sinni sök lengur og að hann gæti ekki sannað mál sitt um vitneskju forsetans af fundinum.

Gagnrýnendur CNN, og þar á meðal Donald Trump sjálfur, hafa brugðist reiðir við. Trump heldur því fram að um lygi sé að ræða og segir hann að blaðamaðurinn frægi, Carl Bernstein, búi í fortíðinni og hugsi eins og „úrkynjað fífl“.

Í yfirlýsingu frá CNN segir að miðillinn standi við fréttina. Því hafi ekki verið haldið fram í fréttinni að Trump hafi vitað af fundinum fyrirfram. Hún hafi verið um að Cohen hafi sagt saksóknurum að hann vissi til þess að Trump hefði vitað af fundinum. Þar að auki hefði Davis ekki verið eini heimildarmaður miðilsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×