Innlent

Úrkomudagar í Reykjavík aldrei verið fleiri en nú

Kjartan Kjartansson skrifar
Regnfötin hafa verið þarfasti þjónn höfuðborgarbúa í sumar. Aldrei hefur rignt eins marga daga á fyrri helmingi ársins frá því að mælingar hófust.
Regnfötin hafa verið þarfasti þjónn höfuðborgarbúa í sumar. Aldrei hefur rignt eins marga daga á fyrri helmingi ársins frá því að mælingar hófust. Vísir/Ernir
Aldrei hafa verið fleiri úrkomudagar í Reykjavík fyrstu sjö mánuði ársins frá því að mælingar hófust. Veðurstofan segir að úrkoma hafi verið yfir meðallagi um mest allt landið í júlí og víða var mánuðurinn sá úrkomusamasti í fleiri áratugi. 

Í yfirliti Veðurstofu Íslands um tíðarfar í júlí kemur fram að úrkoma í Reykjavík mældist 62,3 mm sem er 20% umfram meðallag áranna 1961 til 1990. Sólarlítið var einnig í Reykavík í júlí. Sólskinsstundirnar mældust 89,9, sem er 81 stund undir meðallagi áranna 1961 til 1990. Ekki hefur verið eins sólarlítið í júlímánuði í Reykjavík síðan árið 1989.

Á Akureyri mældist úrkoman 72,8 mm. Það er meira en tvöföld meðalúrkoma júlímánaðar. Aðeins þrisvar sinnum áður hefur mælst eins mikil úrkoma á Akureyri í júlímánuði, síðast árið 2014. Sólskinsstundir mældust 122,5. Það er 36 færri en í meðalári.

Í Stykkishólmi mældist úrkoman 74,9 mm sem er um 75% umfram meðallag og það mesta í júlí frá 1977. Á Höfn í Hornafirði mældist úrkoman 109,7 mm.

Dagar þegar úrkoma mældist 1,0 mm eða meiri voru 16, sex fleiri en í meðalári. Alveg þurrir dagar voru aðeins fimm í Reykjavík, þeir voru jafnfáir árið 1982 en aðeins þrír árið 1955. Á Akureyri mældist úrkoman 1,0 mm eða meiri 17 daga mánaðarins, tíu fleiri en í meðalári og hafa aldrei verið fleiri frá upphafi mælinga.

Ný úrkomumet í júlímánuði voru sett á Grímsstöðum (116 mm), Litlu Ávík (159 mm) og Hænuvík (106 mm).

Þegar litið er til fyrstu sjö mánaða ársins hefur úrkoman í Reykjavík verið 45% umfram meðallag og 30% á Akureyri.

Undir meðaltalshita síðustu tíu ára í Reykjavík

Hlýtt var í veðri á Austurlandi en svalara á Suður- og Vesturlandi í júlí.

Meðalhiti í Reykjavík í júlí var 10,6 stig sem er jafnt meðaltali áranna 1961 til 1990, en 1,5 stigum neðan meðallags síðustu tíu ára. Á Akureyri var meðalhitinn 11,4 stig, 0,8 stigum yfir meðallagi áranna 1961 til 1990 en jafnt meðaltali síðustu tíu ára. Í Stykkishólmi var meðalhitinn 10,0 stig og 11,1 stig á Höfn í Hornafirði. Á Dalatanga var meðalhitinn 10,2 stig sem er hlýjasti júlímánuður frá upphafi mælinga á þeim stað.

Þrátt fyrir tiltölulega svalt veður í sumar var meðalhiti í Reykjavík fyrstu sjö mánuði ársins 4,7 stig, sem er 0,6 stigum ofan meðallags 1961 til 1990, en -0,6 stigum neðan meðallags síðustu tíu ára. Meðalhitinn raðast í 38. sæti á lista 148 ára.

Á Akureyri var meðalhitinn 4,7 stig sem er 1,6 stigum ofan meðallags áranna 1961 til 1990, en 0,4 stigum ofan meðallags síðustu tíu ára. Meðalhitinn þar raðast í 12. sæti á lista 138 ára.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×