Innlent

Hlýjast suðvestanlands á morgun

Margrét Helga Erlingsdóttir skrifar
Svona lítur veðurspáin út fyrir landið klukkan tólf á morgun.
Svona lítur veðurspáin út fyrir landið klukkan tólf á morgun. Veðurstofa Íslands
Veðurstofa Íslands spáir því að hlýjast verði suðvestanlands á morgun. Í dag er suðaustlæg og rigning með köflum sunnan-og vestanlands en annars hægari breytileg átt, skýjað með köflum og víða skúrir einkum síðdegis. Hlýjast verður norðaustanlands í dag.

Þá á að draga úr úrkomu og vindi í kvöld.

Á morgun verður hæg norðlæg eða breytileg átt, skýjað með köflum eða bjartviðri sunnan-og vestanlands en annars skýjað að mestu. Líkur á stöku skúrum víða um land, einkum inn til landsins síðdegis. Hiti 9-18 stig að deginum og sem fyrr segir er spáð því að hlýjast verði suðvestanlands.

Veðurhorfur á landinu næstu daga:

Á laugardag:

Hægviðri og skýjað að mestu, en bjart með köflum sunnan- og vestanlands. Skúrir á stöku stað, einkum inn til landsins síðdegis. Hiti 10 til 18 stig að deginum, hlýjast S- og V-lands.

Á sunnudag:

Austlæg átt, víða 5-10 m/s og skýjað með köflum og stöku skúrir, en heldur hvassara allra syðst síðdegis og dálítil rigning um tíma. Hiti breytist lítið.

Á mánudag (frídagur verslunarmanna):

Norðaustlæg átt, 5-13 m/s. Skýjað með köflum og þurrt að kalla og áfram fremur hlýtt í veðri.

Á þriðjudag:

Norðlæg átt 5-10 m/s. Sums staðar dálítil væta um landið norðaustanvert, en annars bjart að mestu. Hiti 8 til 16 stig, hlýjast suðvestanlands.

Á miðvikudag:

Hæglætisveður, skýjað með köflum og yfirleitt þurrt. Hiti 9 til 16 stig.

Á fimmtudag:

Útlit fyrir sunnan átt með rigningu vestantil, en þurrt og bjart að mestu fyrir austan. Áfram milt í veðri.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×