Innlent

Telja ekki að göngufólk sé í hættu vegna hlaupsins

Kjartan Kjartansson skrifar
Frá Skaftárhlaupi árið 2015 en þá hljóp úr eystri Skaftárkatli.
Frá Skaftárhlaupi árið 2015 en þá hljóp úr eystri Skaftárkatli. Vísir/Vilhelm

Björgunarsveitarfólk vinnur enn að því að rýma svæði vegna hlaups í Skaftá. Vitað er um tvo gönguhópa og nokkra staka göngumenn á svæðinu en ekki er talið að fólk sé í hættu vegna hlaupsins.

Í tilkynningu frá Landsbjörgu kemur fram að 30-40 björgunarsveitarmenn vinni við rýminguna. Þeir hafa verið kallaðir út frá Kirkjubæjarklaustri, úr Skaftártungu, úr Álftaveri og frá Vík. Þeir sem sinna hálendisvakt á Fjallabaki voru fengnir til þess að það fara inn að Langasjó, að skálanum við Sveinstind og við Skælinga til að koma fólki þaðan.

Annar gönguhópanna sem vitað er um á svæðinu er fimm manna en ekki er vitað um stærð hins. Útbúnaður ferðalanga fanns í skála og unnið er að því að finna hvar það fólk heldur sig.

Hlaupið hófst í dag fyrr en reiknað var með. Upphaflega var búist við að það kæmi undan jökli á aðfaranótt laugardags. Tómas Janusson, jarðeðlisfræðingur hjá Veðurstofu Íslands, sagði við Vísi nú síðdegis að hlaupið í Skaftá rísi mun hraðar nú en árið 2015. Það hlaup var það stærsta frá því að mælingar hófust.

Búið er að loka Fjallabaksleið nyrðri austan Eldgjár og við Hvamm í Skaftártungum. Þá hefur brúnni yfir Eldvatn einnig verið lokað vegna hlaupsins.

Uppfært klukkan 18:20: Veðurstofan varar nú við því að jarðhitavatn sé byrjað að renna í Múlakvísl. Fólki er bent á að staldra ekki lengi við í nágrenni árinnar vegna gasmengunar.

Á korti má sjá Sveinstind og árfarvegi Skaftár, Eldvatns og Kúðafljóts. Um 80% hlaupvatnsins gæti skilað sér í hinar síðarnefndu, en þær mynda vestari kvíslina. Hlaupið náði mæli á tindinum um 13:15 í dag.Vísir

Tengdar fréttir

Ferðafólk haldi sig fjarri farvegi Skaftár

Veðurstofan tilkynnti í gær að Skaftárhlaup væri hafið og að hlaupið brytist væntanlega undan jöklinum aðfaranótt morgundagsins, það nái svo hámarki snemma á sunnudag.

Rennsli eykst hratt í Skaftá

Vatn úr Skaftárhlaupi náði fyrsta mæli við Sveinstind um klukkan 13:15 í dag, að sögn Snorra Zóphoníassonar, sérfræðings Veðurstofunnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×